Handbolti

Pat­rekur verður svæðisfulltrúi

Sindri Sverrisson skrifar
Patrekur Jóhannesson hefur starfað sem þjálfari í mörg ár. Hann tekur í sumar við starfi sem svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á höfuðborgarsvæðinu.
Patrekur Jóhannesson hefur starfað sem þjálfari í mörg ár. Hann tekur í sumar við starfi sem svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á höfuðborgarsvæðinu. vísir/Diego

Patrekur Jóhannesson, fyrrverandi landsliðsmaður og þjálfari í handbolta, hefur verið ráðinn sem svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á höfuðborgarsvæðinu.

Patrekur, sem stýrði kvennaliði Stjörnunnar í vetur og hefur einnig verið íþrótta- og rekstrarstjóri félagsins, tekur við nýja starfinu þann 1. ágúst. Hann mun starfa við hlið Hansínu Þóru Gunnarsdóttur sem er einnig svæðisfulltrúi á höfuðborgarsvæðinu.

Alls starfa sextán manns hjá svæðisstöðvum íþróttahéraðanna á Íslandi en stöðvarnar eru átta talsins.

Svæðisstöðvunum var komið á fót eftir samþykktir þess efnis á þingum ÍSÍ og UMFÍ árið 2023. Stöðvunum er ætlað að styðja við íþróttahéruðin í landinu, við innleiðingu á stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum. Þeim er sérstaklega ætlað að auka þátttöku barna og ungmenna, með áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Patrekur á að baki 243 landsleiki í handbolta en eftir að ferli hans lauk sneri hann sér að þjálfun og hefur meðal annars þjálfað í Þýskalandi og Danmörku auk þess að stýra landsliði Austurríkis í um sjö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×