Viðskipti erlent

Apple skoðar að stýra snjalltækjum með hugsunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Tækni til að stýra tækjum með heilanum er þegar byrjuð að nýtast fólki.
Tækni til að stýra tækjum með heilanum er þegar byrjuð að nýtast fólki. AP/Andy Wong

Forsvarsmenn tæknirisans Apple eru búnir að taka skref í átt að því að gera fólki kleift að stýra snjalltækjum fyrirtækisins með heilabylgjum. Með því að setja litlar tölvur í heila fólks sem greina geta rafboð í heilanum og túlkað þau á að verða hægt að stýra tækjum með hugsunum.

Tæknin er meðal annars hugsuð fyrir lamað, hreyfihamlað eða fatlað fólk og hefur fyrirtæki Elons Musk, Neuralink, þegar grætt tæki af þessari gerð við heila fólks. Önnur fyrirtæki vinna einnig að þróun þessarar tækni.

Þriðji maðurinn sem fékk heilaflögu Neuralink ígrædda gat nýverið byrjað að tjá sig með því að tengja tæknina við rödd gervigreindar.

Wall Street Journal segir nú frá því að Apple sé að stíga inn á þetta svið og að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi gert samning við Synchron, þar sem unnið er að þróun heilaflaga. Markmiðið samvinnu þessarar fyrirtækja er að eftir einhverja ár muni fólk geta stýrt símum og tölvum Apple með hugsunum sínum.

Skrefið er sagt sambærilegt því sem Apple tók árið 2014 varðandi tækni sem gerði símum kleift að tengjast heyrnartækjum gegnum Bluetooth. Flest heyrnartæki notast við þessa tækni í dag, samkvæmt WSJ.

Heilaflögur þessar virka í dag með því að plata tölvur til að halda að skipanir séu að berast með tölvumús eða lyklaborði. Apple vill breyta því og þróa sérstaka tækni til að stýra búnaði með heilanum.

Einn þeirra tíu hefur þegar prófað þessa tækni en hann hefur meðal annars notað sýndarveruleikagleraugu Apple og stýrt þeim með hugsunum sínum. Hann er einnig að læra stýra símum og spjaldtölvum en tæknin er þó enn á algjöru frumstigi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×