Innlent

„Heiðar­legt og heil­brigt“ að aug­lýsa em­bættið

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra. vísir/ívar

„Það eru miklar breytingar fram undan á skipulagi og stærð verkefna embættisins. Því fannst mér einfaldlega heiðarlegt og heilbrigt að auglýsa embætti lögreglustjórans og tilkynnti honum það í samræmi við lög og reglur að það stæði til.“

Þetta segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við fréttastofu um starfslok Úlfars Lúðvíkssonar, fráfarandi lögreglustjóra á Suðurnesjum.  Margrét Kristín Pálsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur verið sett tímabundið sem lögreglustjóri á Suðurnesjum í hans stað. 

Þorbjörg kveðst afar þakklát fyrir góð störf Lúðvíks og að ákvörðunin hafi ekkert með hæfi eða starfsgetu Úlfars að gera. Einungis sé um pólitíska ákvörðun að ræða vegna breyttra forsenda.

Greint hefur verið frá því að Úlfar mun láta af embætti á miðnætti en hann var boðaður á fund dómsmálaráðherra í dag þar sem honum var tilkynnt að staða lögreglustjórans á Suðurnesjum yrði auglýst í haust og samningur hans ekki endurnýjaður. Úlfar baðst þá lausnar á staðnum og féllst Þorbjörg á það. 

„Fyrirhugaðar eru töluverðar breytingar á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum sem er í samræmi við áherslur nýrrar ríkisstjórnar um verulega aukinn þunga í landamærapólitík. Það liggur fyrir að ég mun leggja fram frumvarp í haust um brottfararstöð. Það eru sömuleiðis fyrirhugaðar breytingar um það að flytja komustöð svo kallaða til Suðurnesja. Samhliða því að það er verið að skoða alvarlega að flytja ákveðin verkefni frá Ríkislögreglustjóra til lögreglustjórans.“

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×