Erlent

Sakar Rússa um að hafa brennt stærstu verslunar­miðstöð Pól­lands

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikill eldur kviknaði í Marywilska-verslunarmiðstöðinni í Varsjá 12. maí 2014. Aðeins þremur dögum áður kviknaði í IKEA-verslun í Litháen. Útsendarar rússnesku leyniþjónustunnar eru taldir hafa kveikt í báðum stöðum.
Mikill eldur kviknaði í Marywilska-verslunarmiðstöðinni í Varsjá 12. maí 2014. Aðeins þremur dögum áður kviknaði í IKEA-verslun í Litháen. Útsendarar rússnesku leyniþjónustunnar eru taldir hafa kveikt í báðum stöðum. Vísir/EPA

Forsætisráðherra Póllands fullyrðir að útsendarar rússnesku leyniþjónustunnar hafi vísvitandi kveikt í stærstu verslunarmiðstöð landsins sem brann nærri til grunna í fyrra. Sökudólgarnir eru taldir hafa átt þátt í eldsvoða í nágrannaríkinu Litháen skömmu áður.

Marywilska-verslunarmiðstöðin í Varsjá, sú stærsta í Póllandi, gereyðilagðist nánast í miklum eldsvoða sem kviknaði í maí í fyrra. Donald Tusk, forsætisráðherra landsins, sagði í mars að vísbendingar væru um að Rússar hefðu kveikt í verslunarmiðstöðinni. Hann tók af öll tvímæli um það í gær.

„Við vitum núna að eldurinn mikli í Marywilska-verslunarmiðstöðinni í Varsjá var af völdum íkveikju sem rússneska leyniþjónustan skipaði fyrir um. Einstaklingur sem dvaldi í Rússlandi stýri aðgerðunum. Sumir þeirra seku eru þegar í haldi, það er búið að bera kennsl á hina og þeirra er leitað,“ sagði Tusk á samfélagsmiðlum.

Sumir brennuvarganna eru taldir hafa kveikt í IKEA-verslun í Vilníusi, höfuðborg Litháen, þremur dögum fyrir brunann í Varsjá. Pólsk og litháensk yfirvöld hafa unnið saman að rannsókninni, að sögn Reuters-fréttastofunnar. 

Saksóknarar í Litháen hafa þegar sakað rússnesku leyniþjónustuna um að hafa staðið að íkveikjunni þar. Úkraínskir ríkisborgarar hafi kveikt í að fyrirskipan leyniþjónustunnar, að því er segir í frétt evrópska dagblaðsins Politico.

Bæði ríkin hafa kvartað undan því að þau hafi verið fórnarlömb rússneskra skemmdarverka og njósna undanfarin ár. Íkveikjur eru á meðal þeirra skemmdarverka sem Rússar eru sagðir beita í svokölluðum blönduðum hernaði sínum gegn Evrópuríkjum. Stjórnvöld í Kreml hafa alltaf neitað ásökunum um slíkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×