Fótbolti

Cecilía Rán lokaði markinu í loka­leiknum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kann greinilega vel við sig á Ítalíu.
Kann greinilega vel við sig á Ítalíu. Pier Marco Tacca/Getty Images

Cecilía Rán Rúnarsdóttir stóð vaktina í marki Inter þegar liðið lagði Ítalíumeistara Juventus í lokaumferð deildarinnar. Sem besti markvörður deildarinnar var við hæfi að Cecilía Rán hélt marki sínu hreinu.

Fyrir leik kvöldsins var vitað að Juventus væri Ítalíumeistari og að Inter myndi enda í öðru sæti. Það má því segja að leikur kvöldsins hafi verið meira upp á stoltið heldur en eitthvað annað.

Landsliðsmarkvörðurinn Cecilía Rán var á dögunum valin besti markvörður Serie A og hélt upp á það með því að fá ekki á sig mark í kvöld. Inter endar með bestu vörn deildarinnar en liðið fékk aðeins á sig 26 mörk í jafn mörgum leikjum. Alls spilaði Cecilía Rán 22 af þeim leikjum og níu sinnum stóð hún vaktina án þess að fá á sig mark.

Cecilía Rán er á láni í Mílanó-borg þar sem hún er enn samningsbundin þýska stórveldinu Bayern München. Hvort hún verði áfram á Ítalíu verður að koma í ljós en reikna má með að frammistaða hennar í vetur hafi vakið athygli víða.


Tengdar fréttir

Segir að Cecilía verði keypt fyrir metverð

Landsliðsmarkvörðurinn Cecilía Rán Rúnarsdóttir hefur svo sannarlega slegið í gegn með Inter á sinni fyrstu leiktíð í ítölsku A-deildinni í fótbolta og útlit er fyrir að hún verði áfram í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×