Erlent

Vopna­hlé í höfn milli Ind­lands og Pakistans

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Pakistanskir hermenn í Kasmír.
Pakistanskir hermenn í Kasmír. AP/Channi Anand

Bandaríkjaforseti segist hafa haft milligöngu í því að Indland og Pakistan samþykktu allsherjarvopnahlé sem hefur þegar tekið gildi.

Donald Trump Bandaríkjaforseti greinir frá þessu á samfélagsmiðlum en kjarnorkuveldin tvö hafa skipst á að gera árásir hvort á annað undanfarna daga. Greint var frá því í morgun að Pakistanar hafi gert árásir gegn indverskum herstöðvum og vopnageymslum í nótt.

Indverjar svöruðu því snarlega með eigin árásum og gerðu meðal annars árás á höfuðstöðvar pakistanska hersins. Fréttir höfðu einnig af því borist að bæði ríki væru hafin að safna hermönnum við landamærin.

„Í kjölfar langrar nætur viðræðna með milligöngu Bandaríkjanna gleður mig að tilkynna að Indland og Pakistan hafa fallist á allsherjarvopnahlé sem tekur umsvifalaust gildi,“ segir Trump.

„Ég óska báðum löndum til hamingju með að hafa beitt almennri skynsemi og stórgáfum. Takk fyrir athygli ykkar á þessu máli!“ skrifar Trump svo í færslu á samfélagsmiðli sínum sem birtist í hádeginu.

Nágrannaríkin eru bundin römmum sögulegum og menningarlegum böndum en hafa eldað grátt silfur um áratugabil. Tvö þriggja stríða sem háð hafa verið landanna á milli hafa snúist um yfirráð yfir Kasmírhéraði sem deilt er milli Indlands, Pakistans og Kína. Á undanförnum árum hefur ítrekað komið til blóðugra átaka milli hermanna á svæðinu frá öllum þremur ríkjum.

Áætlað er að Indverjar búi yfir um 180 kjarnorkuoddum en Pakistanar 170. Heraflar beggja landa hafa styrkst töluvert undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×