Körfubolti

Fé­lag Martins segir skilið við EuroLeague og fer í arma FIBA

Sindri Sverrisson skrifar
Martin Hermannsson í leik með Alba Berlín. Félagið hefur sagt skilið við EuroLeague.
Martin Hermannsson í leik með Alba Berlín. Félagið hefur sagt skilið við EuroLeague. Getty/Uwe Anspach

Þýska körfuboltafélagið Alba Berlín, sem Martin Hermannsson leikur með, hefur sagt skilið við EuroLeague, sterkustu Evrópukeppni félagsliða, og mun spila í Meistaradeild FIBA í staðinn. Þetta eru stór tíðindi í evrópskum körfubolta.

EuroLeague og hin lægra skrifaða EuroCup eru keppnir á vegum einkafyrirtækisins Euroleague Basketball. Keppnir sem líkt og NBA þurfa því til dæmis ekki að taka neitt tillit til undankeppna landsliða í sinni leikjadagskrá og því fylgja iðulega árekstrar.

Mörg af vinsælustu og bestu félagsliðum Evrópu eiga fast sæti í EuroLeague og er erfitt að komast þar að. Það snýst sem sagt ekki aðeins um árangur í landsdeildum liðanna.

Alba Berlín, sem hefur 22 sinnum orðið þýskur meistari, hefur í 24 ár leikið í EuroLeague eða EuroCup en nú hafa forráðamenn félagsins tilkynnt að svo verði ekki lengur.

Þess í stað ætlar liðið að spila í Meistaradeildinni (e. Basketball Champions League) sem er sterkasta Evrópukeppnin á vegum evrópska körfuknattleikssambandsins.

„Með því að taka þátt í Meistaradeildinni erum við að hefja nýjan kafla og aðlaga okkur að breyttu landslagi í evrópskum körfubolta. Skilyrðin fyrir sæti í EuroLeague hafa breyst gríðarlega. Með gildum okkar – efnahagslegri sjálfbærni, samvinnu og þróun – viljum við hjálpa til við að móta framtíðarvistkerfi evrópsks körfubolta,“ sagði Marco Baldi, stjórnandi hjá Alba Berlín.

„Þetta er söguleg stund fyrir keppnina okkar,“ sagði Patrick Comninos, framkvæmdastjóri Meistaradeildarinnar.

„Það að Alba Berlín komi inn í keppnina er mikill gæðastimpill fyrir okkar sýn og langímaáætlanir FIBA varðandi félagsliðakeppnir í Evrópu,“ sagði Comninos.

Fjögur lið eru eftir í Meistaradeildinni og spila í undanúrslitum á föstudaginn. Galatasaray mætir La Laguna Tenerife en AEK Aþena mætir Unicaja.

Alba Berlín endaði í 18. og neðsta sæti EuroLeague með aðeins fimm sigra úr 34 leikjum og var því langt frá því að komast í úrslitakeppnina. Þar mætast í undanúrslitum Olympiacos og Monaco, og Fenerbahce og Panathinaikos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×