Skoðun

Janus og jakkalakkarnir

Magnús Jochum Pálsson skrifar

Hvað er fólk að pæla?

Mig langaði mest að kalla ráðherra drullusokk (en lét það vera) er ég heyrði af lokun eins fárra úrræða geðþjónustu einhverfra ungmenna, Janus endurhæfingu. Þetta er í sömu andartökum og nýr meirihluti þingsins stærir sig af nýrri mannréttinastofnun.

Það á sem sagt að halda upp á opnun mannréttinda-apparats með því að traðka á mannréttindum eins veikasta hópsins í þjóðfélaginu. Flokkur Fólksins hjá hinu opinbera (ríki og borg) ætlar eftir digurbarkaleg loforð undanfarinna ára að hoppa á höfðum einhverfra ungmenna. Flottræfilshátturinn nær vart neðar. Hinir skinhelgu opinberu jakkalakkar meta líf þessara ungmennanna ekki mikils enda geta hæglega orðið dauðsföll af drattalagangi hins opinbera á löngum biðlistum er ungmennunum er nú ætlað að enda á. Mannréttindamorð myndi ég því kalla þetta.

Nálgun er varðar lokun Janusar endurhæfingar virðist tekin af skeiðum frekar en hnífum í skúffu hins opinbera. Endurhæfing á geðvanda ungmenna er flokkuð með endurhæfingu sárra sitjenda þaulsetinna jakkalakka.

Þetta apatí er svona eins og öllum landsmönnum sé ætlað að klæðast sama skó- og fatanúmeri. Nálgunin er því vart annað en tilfinningalaus farsi fáfróðra.

Höfundur er varamaður í stjórn Einhverfusamtakanna.




Skoðun

Sjá meira


×