Lífið

Hver myndi vinna í slag, hundrað gaurar eða ein górilla?

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Á hægri hönd má sjá Silfurbak, karlkyns górillu, en á vinstri hönd má sjá þó nokkra mennska karla.
Á hægri hönd má sjá Silfurbak, karlkyns górillu, en á vinstri hönd má sjá þó nokkra mennska karla. Getty

Hver myndi vinna slag milli hundrað gaura og einnar górilla? Þessi spurning hefur tröllriðið netheimum undanfarið. Górillan er margfalt sterkari en meðalmaður en mennirnir eru aftur á móti ansi margir. Sérfræðingar virðast sammála um úrslit bardagans.

Jarmfræðiorðabókin Know Your Meme, ítarlegur gagnagrunnur um meme, segir spurninguna um slag 100 manna við eina górillu að minnsta kosti ná aftur til febrúar 2022 þegar TikTok-notandinn Yuri5kp2 birti myndband þar sem hann spurði fylgjendur sína út í slagsmálin.

Þremur árum seinna skaut spurningin aftur upp kollinum á TikTok í seinni hluta apríl og dreifðist svo áfram til X (áður Twitter) og Instagram. Síðan smitaðist hún úr netheimum í raunheima. 

Á ESPN velti sjónvarpsmaðurinn Stephen A. Smith spurningunni fyrir sér og taldi mennina geta unnið ef hver og einn þeirra væri í líki Dwayne „Steina“ Johnson, fyrrverandi glímukappa.

Samfélagsmiðlastjarnan Mr. Beast, sem hefur aflað sér vinsælda með því að láta fólk keppa í allskonar áskorunum, grínaðist með að hann væri að leita að hundrað sjálfboðaliðum til að berjast við górillu. 

„Sjálfsagt, hvað er það versta sem gæti gerst?“ svaraði auðkýfingurinn Elon Musk.

Mennirnir með taktískt forskot

En hvað segja sérfræðingar í prímötum um þessa tilgátuspurningu? 

Tara Stoinski, forseti Górillusjóðs Dian Fossey (e. Dian Fossey Gorilla Fund) og vísindamaður, sagði við Forbes að vanalega myndi hinn blíði risi aldrei taka þátt í slíkum bardaga. En ef til hans kæmi myndu mennirnir hundrað sennilega vinna þó þeir myndu ekki allir lifa bardagann af.

Ferðamenn fylgjast með górillu í skógum Austur-Kongó.Getty

Silfurbakur, sem er heiti karlkyns górillunnar, getur vegið allt að 180 kíló og er talið að hann sé fjórum til tíu sinnum sterkari en meðalmaðurinn. Augljóslega myndi górilla vinna einn mann í slag en þegar kemur að hundrað mönnum þyngist róður górillunnar.

„Menn geta notað margar mismunandi aðferðir til að taka niður górillu. Þeir geta unnið í bylgjum, þeir geta umkringt og afvegaleitt, þeir geta samstillt aðgerðir sínar. Við erum ótrúleg í samvinnu þegar við viljum vera það,“ sagði Stoinski við Forbes.

Þetta taktíska forskot myndi gera það að verkum að mennirnir myndu þreyta górilluna hægt og rólega þar til hún yrðir yfirbuguð. Þá sagði hún að fólk ætti frekar að einblína á hvernig væri hægt að hjálpa górillum en sigra þær í slag, górillur væru í útrýmingarhættu af manna völdum.

Hálsbrot, bitsár og heilablæðingar

Ron Magill, náttúruverndarsinni og náttúrulífsljósmyndari, var einnig spurður út í spurninguna og sagði við Rolling Stone að hann myndi aldrei vilja sjá slíkan bardaga eiga sér stað. Slík spurning sannaði helst að fólk hefði of mikinn tíma á höndum til að velta fyrir sér alls konar rugli.

Taldi Magill hundrað menn á besta aldri og í góðu formi myndu sigra górillu í slag ef þeir væru samhentir og skipulagðir.

Gervigreindin telur bardagann myndu líta einhvern veginn svona út.

Mennirnir mættu þó eiga von á „miklum skaða sem gæti auðveldlega falið í sér dauðsföll af völdum hálsbrota, harkaleg bitsár á slagæðum, alvarleg höfuðhögg sem myndu leiða til banvænna heilablæðinga og köfnunar þegar menn myndu hrúgast ofan á hver annan,“ sagði Magill við Rolling Stone.

Fyrir mennina næst górillunni væri um kamikaze-verkefni að ræða. Margir eftirlifenda myndu sennilega lamast eða afmyndast af völdum górillunnar. 

Að sögn Magill gætu mennirnir yfirbugað górilluna með því að veita henni nægilega mörg högg. Besta aðferðin væri sennilega að umkringja górilluna alveg þannig hún gæti ekki andað eða hreyft útlimi sína.

Ef marka má þessa tvo sérfræðinga er svarið því ljóst. Hins vegar má aldrei vanmeta gunguskap manneskjunnar og alls ekki víst að mennirnir hundrað gætu unnið markvisst saman. Raunverulegt svar við spurningunni munum við heldur aldrei fá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.