Skoðun

Hvað er að frétta af humrinum?

Jónas Páll Jónasson skrifar

Alla tíð hafa fiskveiðar skipt okkur Íslendinga miklu. Umræðan um veiðar og sveiflur í aflabrögðum er oft á tíðum fjörug, en einnig erfið og stundum villandi. Spurt hefur verið hvernig standi á því að í nokkuð „fullkomnu fiskveiðistjórnunarkerfi“, megi finna dæmi um stofna sem skilgreindir eru undir varúðarmörkum, þ.e. að metin stofnstærð er kominn undir 10% af hámarks metinni stærð. En af hverju hrynja stofnar? Sveiflur í umhverfisskilyrðum hafsins geta og hafa í gegnum tíðina stýrt miklu varðandi ástand stofna. Með veiðum höfum við svo oft á tíðum ýkt sveiflurnar og auðvitað er hægt að ofveiða stofna. Leturhumarstofninn við Ísland eða humarinn okkar er gott dæmi um stofn sem hefur lent í niðursveiflu. Oft er ýmislegt látið flakka í umræðunni, sumt hljómar stundum trúverðugt, en hvað kom fyrir?

Leturhumarinn

Stofninn við Ísland er á norðurmörkum síns útbreiðslusvæðis og sá nyrsti sem nýttur er. Útbreiðslan er allt frá Kanaríeyjum, í Miðjarðarhafinu og stærstu stofnana er að finna í kringum Bretlandseyjar. Humarinn er nokkuð langlífur og heldur til á leirbotni þar sem hann grefur sér holur eða holukerfi. Skilyrðin við Ísland eru nokkuð sérstök. Kvendýrið hrygnir bara annað hvert ár á vorin, sökum þess hve langan tíma það tekur fyrir eggin að þroskast, en hún dvelur í holu sinni með eggin undir halafótum í 12-13 mánuði. Hér er einnig hlutfall kvendýra í veiðum mjög lágt, undir 10%, samanborið við um 40-50% í mörgum öðrum stofnum.

Beinar humarveiðar við Ísland hefjast á 6. áratugnum, ná hámarki árið 1963 þegar veidd voru 6000 t og aftur áratug síðar í 4800 t. Aflabrögð versnuðu til muna eftir þessi hámörk og einnig nokkuð síðar með kólnandi skilyrðum í hafinu. Á þessum árum var jákvæð fylgni milli afkomu tegundarinnar og hitastigs í sjónum. Veiðum var stýrt með ráðgjöf frá því um 1980, veiðihlutfall var lækkað árið 1987 niður í 14% af viðmiðunarstofni. Það skilaði sér í hærra hlutfalli af stórum dýrum, en almennt verða humrarnir stærri við Ísland.

Hlýnun og svo hrun

Það hlýnaði hjá okkur í sjónum við Ísland (og á landi) upp úr 1997, og stórir árgangar af humri urðu til. Þessir árgangar skila sér í veiðarnar að fullu 8-10 árum síðar og árið 2008 ganga veiðarnar best, en ráðlagt var þá að veiða 2200 t. Næstu ár eru einnig mjög góð, meira er af stórum og fínum humri, en ráðgjöfin fer lækkandi frá 2200 t árið 2009 í 1150 t 2017. Árið 2019 er gripið til róttækra aðgerða og aðeins voru leyfðar mjög takmarkaðar veiðar næstu þrjú ár og loks var lagt til veiðibann árið 2022, en í ljósi stöðunnar þá var síst of snemma brugðist við.

Nýliðunarskortur

Árið 2013 kemur það fyrst fram í ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar að aldrei hafi sést eins lítið af humri undir 40 mm, eða um 6 ára og yngri. Þessi nýliðunarskortur sem stafaði af lélegum árgöngum frá árinu 2005 og yngri heldur svo áfram allt þar til greina má nýliðunarpúls í leiðangri sem farin var sumarið 2024, þá frá árgöngum frá 2018 og yngri. Vísbending um þessa nýliðun mátti sjá í lirfusýnum árin 2018 og 2019. Staðreyndin er sú að það vantaði að mestu alla árganga í yfir 13 ár.

En hvað veldur?

Sjávarhiti við suðurströndina á 150 m dýpi náði hámarki í kringum 2005 í 8°C að vori, hafði þá hækkað um eina gráðu, en lækkar svo aftur um hálfa gráðu eftir 2015. Metið er svo að hækkun um eina gráðu stytti klaktíma eggja undir halafótum um allt að mánuð. Vorhámark þörungablóma við suðurströndina er nokkuð breytilegt, var í lok maí árin 1998 - 2000, en frá 2002 – 2016 var það að jafnaði eftir miðjan júní (2010 undantekning). Styrkur næringarefna, aðallega kísils lækkaði mjög frá 2000 allt til 2016, sem hefur áhrif á magn frumframleiðslu. Staðan var því sú að lirfurnar hafa klakist fyrr út og þar sem blóminn var seinna á ferðinni hafa þær líklegast ekki komist á legg.

En var það bara hjá humrinum sem nýliðun var skert? Nei, hjá nytjategundum eins og skötusel, blálöngu, löngu, keilu, langlúru og stórkjöftu komu mismörg ár af mjög lélegri nýliðun á þessu tímabili. Á árabilinu frá 2005 til 2019 var til að mynda bara einn árgangur (2007) sandsílis sem eitthvað sást af við suðurströndina, en það olli svo viðkomubresti hjá lunda og fleiri sjófuglum. Jákvæðar breytingar hafa sést hjá öllum þessum stofnum undanfarin ár, nú síðast hjá stórkjöftu og skötusel. Þessar breytingar virðast tengjast breytingum í straumakerfum sem sjá má víðar í Atlantshafi. Þær neikvæðu breytingar sem sáust hér mátti t.d. merkja örfáum árum fyrr við Færeyjar og höfðu verulega neikvæð áhrif á fiskistofna og vistkerfið við Færeyjar.

Aðrar orsakir?

En hvað með makrílinn, var þetta ekki allt honum að kenna, eða skarki botntrolla, eða vitlausu stofnmati? Makríllinn fer að ganga hér við land á svipuðum tíma, en mest þó eftir 2010 undan suðurströndinni. Koma hans gæti spilað inní með auknu afráni á lirfum þótt ekki hafi verið vart við slíkt í þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið. Hefðbundnar veiðar með humarvörpu skýra ekki nýliðunarbrestinn, en umfang veiða var minna þau ár sem nýliðun skorti. Þær aðferðir sem beitt er við mat á þróun stofnstærðar styðja niðurstöður um skort á nýliðun. Gildir þá einu hvort beitt sé eldri aðferðum við matið eða með þeim aðferðum sem beitt hefur verið undanfarin ár, þar sem humarholur eru taldar með neðansjávarmyndavélum. Nýjasta talningin á humarholum árið 2023 greindi þó nokkra fjölgun á holum sem rekja má til sterkari yngri árganga humra.

Ef nýliðun eykst áfram á komandi árum eru líkur til þess að hér verði humarveiðar stundaðar á ný.

Höfundur er fiskifræðingur og sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnun.




Skoðun

Skoðun

Konur og menntun

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,Steinunn Bragadóttir skrifar

Sjá meira


×