Körfubolti

Ár­mann í úr­slit um sæti í efstu deild

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ármann mun berjast við Hamar um sæti í Bónus-deild karla.
Ármann mun berjast við Hamar um sæti í Bónus-deild karla. Ármann Körfubolti

Ármann tryggði sér í dag sæti í úrslitaeinvíginu um laust sæti í Bónus-deild karla er liðið vann öruggan 19 stiga sigur gegn Breiðabliki í fjórða leik liðanna í kvöld.

Gestirnir í Ármanni leiddu einvígið 2-1 fyrir leik dagsins og því ljóst að Breiðablik þurfti á sigri að halda á heimavelli til að tryggja sér oddaleik.

Heimamenn áttu þó í miklu basli í upphafi leiks og skoruðu aðeins sjö stig í fyrsta leikhluta.

Ármannsmenn leiddu því með níu stigum að fyrsta leikhluta loknum, og munurinn var kominn upp í tólf stig þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Áhlaup gestanna hélt svo áfram eftir hlé. Ármann skoraði 35 stig gegn 21 stigi heimamanna í þriðja leikhluta og þar með voru úrslitin svo gott sem ráðin.

Blikar náðu að laga stöðuna lítillega í lokaleikhlutanum, en Ármann vann að lokum öruggan 19 stiga sigur, 80-99.

Ármann er þar með á leið í úrslitaeinvígi gegn Hamri frá Hveragerði um laust sæti í Bónus-deild karla á næsta tímabili, en Breiðablik er komið í sumarfrí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×