Fótbolti

Real Madrid pressar á Barcelona en Orri og fé­lagar í vand­ræðum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Alaba fagnar með Arda Güler, hetju Real Madrid gegn Getafe.
David Alaba fagnar með Arda Güler, hetju Real Madrid gegn Getafe. getty/Alvaro Medranda

Arda Güler skoraði eina mark leiksins þegar Real Madrid sótti Getafe heim í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Orri Steinn Óskarsson og félagar í Real Sociedad töpuðu fyrir Alavés.

Güler fékk tækifæri í byrjunarliði Real Madrid í kvöld og nýtti það vel. Á 21. mínútu kom hann Spánar- og Evrópumeisturunum yfir með skoti fyrir utan vítateig.

Það mark dugði Real Madrid og liðið vann sinn þriðja 1-0 sigur í röð. Real Madrid er í 2. sæti deildarinnar með 72 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Barcelona. Bæði lið eiga fimm leiki eftir en þau eiga eftir að mætast innbyrðis 11. maí.

Orri kom inn á sem varamaður á 66. mínútu þegar Real Sociedad beið lægri hlut fyrir Alavés á útivelli, 1-0.

Real Sociedad hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu þremur leikjum og er í 9. sæti deildarinnar.

Orri hefur komið við sögu í 22 deildarleikjum á tímabilinu og skorað þrjú mörk. Hann var síðast í byrjunarliði Real Sociedad fyrir rúmum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×