Erlent

Eldur í öðrum hreyfli vélar Delta í Flórída

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Farþegar þurftu að fara úr vélinni um neyðarútganga.
Farþegar þurftu að fara úr vélinni um neyðarútganga. Vísir/AP

Þrjúhundruð farþegar um borð í farþegaþotu á vegum Delta flugfélagsins í Bandaríkjunum þurftu að yfirgefa vélina í snatri þegar eldur kom upp í henni á flugbrautinni á Orlando flugvelli í Flórída í gær. 

Á myndum sést mikill eldur í öðrum hreyfli vélarinnar og voru neyðarútgangar notaðir til að koma farþegunum frá borði á sama tíma og slökkvilið barðist við eldinn.Vélin, sem er af gerðinni Airbus A330, var um það bil að hefja sig til flugs þegar eldurinn kom upp og engin slys urðu á fólki. Alvarleg flugatvik í Bandaríkjunum hafa verið þónokkur það sem af er þessu ári. 

Þannig létust 67 þegar farþegavél rakst á herþyrlu í Janúar í höfuðborginni Washington og þá komust áttatíu farþegar lífs af þegar þota á vegum Delta flugfélagsins brotlenti í Toronto þar sem hún var að koma inn til lendingar með þeim afleiðingum að flugvélin fór á hvolf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×