Enski boltinn

Al­fons með sitt fyrsta mark fyrir Birming­ham

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alfons Sampsted fagnar.
Alfons Sampsted fagnar. Birmingham City

Hægri bakvörðurinn Alfons Sampsted skoraði sitt fyrsta mark í treyju Birmingham City þegar liðið vann Burton Albion 2-0 á útivelli í ensku C-deildinni á Englandi.

Alfons kom sínum mönnum yfir þegar ein mínúta var til loka venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik. Staðan var hins vegar 0-2 í hálfleik þar sem Jay Stansfield tvöfaldaði forystuna í uppbótartíma.

Ekkert var skorað í síðari hálfleik og lauk leiknum með 2-0 sigri gestanna. Alfons og Willum Þór Willumsson léku allan leikinn í liði Birmingham á meðan Jón Daði Böðvarsson kom inn af bekknum hjá Burton þegar stundarfjórðungur lifði leiks.

Birmingham hefur þegar tryggt sér sigur í C-deildinni og er nú með 99 stig þegar liðið á enn fjóra leiki eftir á meðan flest lið eiga aðeins tvo eftir. Það er því nægur tími til að brjóta 100 stiga múrinn.

Jón Daði og félagar hanga rétt fyrir ofan fallsæti þökk sé því að Bristol Rovers er með verri markatölu þar sem bæði lið eru með 43 stig.

Benóný Breki Andrésson spilaði síðasta hálftímann í 2-1 sigri Stockport County á Huddersfield Town. Hann fiskaði vítið sem sigurmarkið kom úr. Með sigrinum hefur Stockport tryggt sæti sitt í umspili um sæti í B-deildinni að hefðbundinni deildarkeppni lokinni. 

Sem stendur situr liðið í 5. sæti með 81 stig. Liðin í 3. til 6. sæti fara í umspil.

Guðlaugur Victor Pálsson spilaði allan leikinn þegar Plymouth Argyle vann 3-1 sigur á Coventry City. Sigurinn þýðir að Plymouth lifi í voninni um að halda sæti sínu í B-deild. Þegar tvær umferðir eru eftir er liðið á botni deildarinnar með 43 stig, aðeins þremur stigum frá öruggu sæti.

Stefán Teitur Þórðarson nældi sér í gult spjald þegar Preston North End tapaði 2-1 fyrir Hull City. Skagamaðurinn og félagar í Preston eru í 18. sæti með 49 stig.

Jason Daði Svanþórsson nældi sér í gult spjald þegar Grimsby Town henti frá sér tveggja marka forystu gegn Port Vale í ensku D-deildinni. Jason Daði var tekinn af velli á 82. mínútu þegar staðan var enn 2-1 fyrir Grimsby.

Grimsby situr sem stendur í 7. sæti með 67 stig en Jason Daði og félagar hafa ekki unnið í síðustu þremur deildarleikjum sínum. Liðin í 4. til 7. sæti D-deildar fara í umspil um sæti í C-deildinni á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×