Sport

Segir Akur­eyri á hjara veraldar og varð hug­fanginn í Sjallanum

Sindri Sverrisson skrifar
Það vantaði ekkert upp á stemninguna á Sjally Pally, eins og blaðamaðurinn Will Schofield fékk að kynnast.
Það vantaði ekkert upp á stemninguna á Sjally Pally, eins og blaðamaðurinn Will Schofield fékk að kynnast. Facebook/Píludeild Þórs

Það var mikil stemning og fullt út úr dyrum á pílumótinu Sjally Pally í Sjallanum á Akureyri á dögunum. Á meðal þeirra sem heilluðust af mótinu er enski blaðamaðurinn Will Schofield eins og hann skrifaði um í pistli á Daily Star.

Alexander Veigar Þorvaldsson og Ingibjörg Magnúsdóttir fögnuðu sigri á mótinu í ár, eftir sigra gegn Matthíasi Friðrikssyni og Kittu Einarsdóttur í úrslitaleikjunum. Þessu lýstu kynnarnir John McDonald og Russ Bray en það var koma þessara heimsþekktu manna til Íslands sem fékk blaðamanninn Schofield til að taka flugið til Íslands.

Í pistli sínum skrifar hann um upplifun sína af Akureyri, sem hann lýsir sem eins konar hjara veraldar vegna nálægðar við norðurpólinn, og af mótinu í Sjallanum.

Það var að sjálfsögðu rjómablíða á Akureyri þegar Schofield dvaldi þar og hann naut þess einnig að vera inni í Sjallanum, á móti sem hann lýsir sem óvenjulegu. Pílukast sé hins vegar alls staðar eins og að ástríðan hafi augljóslega verið mjög mikil á mótinu.

Þá veltir Schofield því fyrir sér hvort að Ísland muni jafnvel eignast fulltrúa á HM, í Ally Pally, áður en langt um líður. Hann segir hæfileikana alveg til staðar og að Matthías og Alexander hafi sýnt frammistöðu sem sómi sér á Evrópumótaröðinni. 

Hann bætir við að Matthías hafi verið afar öflugur í uppbyggingu pílunnar á Íslandi og til að mynda lagað ljósabúnaðinn á sviðinu áður en hann keppti sjálfur í átta manna úrslitum.

Schofield segir mótið á Akureyri hafa staðist samanburð við toppmót í Bretlandi. Hann hafi verið gjörsamlega heillaður. Skömmu síðar var hann svo á móti í Manchester, þar sem vissulega hafi verið meira undir en áhorfendurnir hins vegar alls, alls ekki eins ástríðufullir og þau hundruð sem mættu í Sjallann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×