Erlent

Ís­lenskir feðgar flugu með þyrlunni nokkrum tímum fyrir slysið

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Stél þyrlunnar sprakk af í miðju flugi og hrapaði hún síðan á hvolfi ofan í Hudson-á.
Stél þyrlunnar sprakk af í miðju flugi og hrapaði hún síðan á hvolfi ofan í Hudson-á. Ap

Íslenskir feðgar fóru í útsýnisflug með þyrlunni sem hrapaði í Hudson-ánna á fimmtudag. Skömmu eftir að þeir flugu yfir borgina hrapaði þyrlan til jarðar og létust allir sex um borð.

Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times um þyrluslysið.

Rafn Herlufsen og fjórtán ára sonur hans voru á ferðalagi um New York í tilefni þess að sonurinn var að fermast. Á þriðjudeginum fóru þeir í Madison Square Garden að fylgjast með æsispennandi leik New York Knicks og Boston Celtics sem endaði með tveggja stiga tapi heimamanna, 117-119.

Á fimmtudaginn fóru þeir í útsýnisflug með Bell 206-þyrlu hjá New York Helicopter Tours. Rafn flaug í annað skiptið með fyrirtækinu en sonurinn í fyrsta sinn. Þeir fengu mynd af sér með þyrlunni, rétt eins og fjölskyldan sem lést í slysinu og flugu síðan yfir Frelsisstyttuna, Ellis-eyju og One World Trade Center. „Ég elska borgina,“ sagði Rafn við New York Times. 

Ekki kemur fram nákvæmlega hvenær fegarnir flugu með þyrlunni en það virðist hafa verið nokkrum klukkustundum áður en þyrlan hrapaði til jarðar.

Escobar-fjölskyldan, hjónin Agustin og Mercé og þrjú börn þeirra, mættu á þyrlupallinn klukkan 15, fengu mynd af sér og fóru í kjölfarið upp í þyrluna. Eftir rúmlega korterstúr þá splundraðist þyrlan í loftinu og hrapaði ofan í Hudson-á með þeim afleiðingum að allir létust.

Síminn logaði eftir slysið

Rafn lýsti því við New York Times að skilaboðum og símtölum hafi byrjað að rigna inn til hans fljótlega eftir slysið. Hann hafi þá fattað að þeir hefðu flogið með sömu þyrlu.

Þyrluslysið hafi tekið sérstaklega á son Rafns, það væri erfitt að vera fjórtán ára og upplifa svona mikla nálægð við dauðann. Hins vegar ætluðu þeir feðgarnir að enda ferðina á jákvæðum nótum.

„Við eigum einn dag eftir af New York-dvöl okkar,“ sagði Rafn við New York Times á fimmtudag. Hann ætlaði ekki að láta þetta skemma þessa tímamótaferð þeirra feðga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×