Fótbolti

Á góðar minningar frá Þróttara­vellinum

Aron Guðmundsson skrifar
Hildur í leik með íslenska landsliðinu
Hildur í leik með íslenska landsliðinu Vísir/Getty

Ís­lenska lands­liðs­konan Hildur Antons­dóttir er klár í að byrja gegn Noregi í Þjóða­deildinni í fót­bolta seinna í dag eftir að hafa glímt við meiðsli upp á síðkastið. Hún er sér­stak­lega spennt fyrir því að spila á heima­velli Þróttar Reykja­víkur, frá þeim velli á hún góðar minningar.

Hildur hefur verið að glíma við meiðsli undan­farna mánuði en hefur í að­draganda þessa lands­liðs­verk­efnis náð að æfa á fullu þó svo að var­lega hafi verið farið í sakirnar varðandi mínútur hennar inn á vellinum með félagsliðinu Madrid CFF.

„Endur­hæfingin hefur gengið mjög vel. Það gerist í byrjun febrúar að ég ríf eitt­hvað smá aftan í læri. En það er búið að hugsa mjög vel um mig úti og við höfum verið varkár í endur­komunni þar sem að þessi meiðsli geta tekið sig upp. Við höfum farið mjög var­lega, ég er búin að vera æfa núna síðustu fjórar vikur en ekki verið að spila til þess að halda mér góðri.“

Klippa: Hildur um veruna í Madrid og landsleik dagsins

Erum við þá komin á það stig núna að þú getir byrjað leikinn gegn Noregi?

„Ég má alla­vegana spila leiki. Ég er til í það.“

Hildur gekk í raðir Madrid CFF í spænsku úr­vals­deildinni frá Fortuna Sittard í Hollandi í fyrra og líkar veran þar mjög vel.

„Þetta hefur verið mjög skemmti­legur og lær­dóms­ríkur tími. Þetta er öðru­vísi fót­bolti, öðru­vísi æfingar og ég þurfti alveg nokkrar vikur til þess að venjast álaginu en heilt yfir hefur þetta verið frábær lífs­reynsla, ég er búin að læra margt.“

En er maður að leggja það á sig að læra spænskuna?

„Já ég fer í spænsku tíma tvisvar sinnum í viku. Æfingarnar hjá okkur fara fram á spænsku og í liðinu eru nokkrir leik­menn sem tala bara spænsku. Maður þarf því að læra það.“

Ís­lenska kvenna­lands­liðið mætir Noregi seinna í dag í Þjóða­deildinni. Leikið verður á heima­velli Þróttar Reykja­víkur þar sem að Laugar­dals­völlurinn er ekki leik­hæfur og Hildur bíður í of­væni eftir því að spila á Þróttara­vellinum.

„Ég á mjög góðar minningar frá Þróttara­vellinum, sneri. Fyrsti leikurinn minn eftir að hafa slitið kross­band var á þessum velli og síðast þegar að ég spilaði þarna skoraði ég tvö mörk. Ég er mjög spennt fyrir leiknum þarna.

Leikur Ís­lands og Noregs hefst klukkan korter í fimm í dag og verður lýst í beinni textalýsingu hér á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×