Íslenski boltinn

„Hefur aldrei verið vanda­mál fyrir mig“

Sindri Sverrisson skrifar
Elmar Atli Garðarsson verður ekki með Vestra fyrstu vikur Íslandsmótsins sem hefst um helgina.
Elmar Atli Garðarsson verður ekki með Vestra fyrstu vikur Íslandsmótsins sem hefst um helgina. Vísir/Hulda Margrét

Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði Vestra, segist aðeins hafa verið að sækjast eftir spennu þegar hann braut veðmálareglur með því að veðja á leiki í Bestu deild karla í fyrra. Eftir að upp um hann komst hafi hann búist við þyngri refsingu en hann á endanum fékk.

Elmar Atli var í mars dæmdur í tveggja mánaða bann og missir því af samtals sjö fyrstu leikjum Vestra í Bestu deildinni vegna veðmála sinna á síðustu leiktíð.

Í dómi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ kemur fram að hann hafi á síðasta ári veðjað á 31 leik í Bestu deild karla, fjóra leiki í Mjólkurbikar og tvo leiki í Lengjubikar, eða samtals 37 leiki í keppnum sem Vestri tók þátt í. Hann veðjaði þó aldrei á leiki síns eigin liðs og ekkert benti til þess að hann hefði reynt að hagræða úrslitum leikja.

„Ég vissi eiginlega ekkert við hverju ég átti að búast,“ segir Elmar Atli við RÚV og bætir við: „Það hafa komið upp tvö svipuð mál og ég var alveg að búast við þyngri dómi. En líka auðvitað að vonast eftir mildari dómi. Þetta hefði getað farið verr fyrir mig. Kannski bara sanngjarn dómur, maður braut reglur.“

Í dómnum kemur fram að tekið sé tillit til þess að mikill dráttur hafi verið á málinu en fjórir mánuðir liðu frá því að KSÍ fékk veðmálasögu Elmars Atla frá UEFA og MGA áður en framkvæmdastjóri KSÍ skilaði greinargerð til aga- og úrskurðarnefndar þann 7. mars.

Elmar Atli kveðst þakklátur fyrir stuðning þjálfara síns, Davíðs Smára Lamude, og formannsins Samúels Samúelssonar. 

Hann er jafnframt spurður út í það hvort að hann telji veðmál vera stórt vandamál innan fótboltans en Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri KSÍ, lýsti því í viðtali við Vísi í vikunni að umfang veðmálastarfsemi í kringum fótbolta hérlendis væri áhyggjuefni.

„Ég á erfitt með að svara því. Þetta hefur aldrei verið vandamál fyrir mig og ég get alveg lifað lífinu án þess að vera í þessu. Maður var bara að sækja í einhverja spennu. Auðvitað er fólk þarna úti sem er fíklar og ef það er þannig er það alls ekki gott. En ef þú getur veðjað án þess að það truflar líf þitt er það nú ekki stórmál,“ segir Elmar Atli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×