Fótbolti

Rann­saka hatur­sorðræðu í garð Banda

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Barbra Banda í leik Orlando Pride og Gotham FC um liðna helgi.
Barbra Banda í leik Orlando Pride og Gotham FC um liðna helgi. Rich Graessle/IGetty Images

NWSL-deildin í Bandaríkjunum rannsakar nú hatursorðræðu eins áhorfanda í garð Barbra Banda, leikmanns Orlando Pirate.

Atvikið átti sér stað í 2-0 sigri Orlando Pride á Gotham FC á Sports Illustrated-vellinum í New York um liðna helgi. Gotham hefur beðið Orlando afsökunar á atvikinu. Þá er rannsókn í fullum gangi.

„Svona hegðun er ekki boðleg og á ekki heima í deildinni okkar né á leikvöngunum okkar. Við leggjum okkur fram við að skapa öruggt umhverfi fyrir öll, sérstaklega leikmennina sem eru meðal þeirra bestu í íþróttinni okkar,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu deildarinnar og beggja liða.

„Barbra Banda er bæði framúrskarandi leikmaður sem og manneskja. Við erum stolt af því að hún sé hluti af deildinni okkar,“ segir einnig yfirlýsingunni.

Þar segir Gotham einnig að öryggisverðir vallarins hafi brugðist rétt við, rætt við viðkomandi einstakling og fylgst með það sem eftir lifði leiks.

Hin 25 ára gamla Banda var valin leikmaður ársins í kvennaboltanum af breska ríkisútvarpinu, BBC, á síðasta ári eftir að hún skoraði 17 mörk í NWSL-deildinni og hjálpaði Orlando Pride að vinna sinn fyrsta meistaratitil.

Þá skoraði hún fjögur mörk fyrir Sambíu á síðustu Ólympíuleikum og er nú markahæsti leikmaður Afríku í sögu leikanna með 10 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×