Handbolti

„Það er bara einn titill eftir“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stefán Arnarson, þjálfari Hauka.
Stefán Arnarson, þjálfari Hauka. Vísir/Hulda Margrét

Stefán Arnarson, þjálfari Hauka, segir sitt lið einfaldlega ekki hafa spilað nógu vel til að geta tekið stig af toppliði Vals í toppslag Olís-deildar kvenna í handbolta í kvöld.

Haukar máttu þola sex marka tap gegn Val í kvöld í leik þar sem Valskonur höfðu yfirhöndina frá upphafi til enda.

„Við grófum okkur gröf í fyrri hálfleik og vorum bara slakar í öllum þáttum leiksins,“ sagði Stefán í leikslok. „Við bættum leik okkar aðeins í seinni hálfleik en Valur er bara of gott lið til að það sé hægt að leyfa þeim að fá svona mikið forskot.“

Frammistaða Hauka litast þó að einhverju leyti af því að liðinu vantaði tvo lykilmenn í kvöld. 

„Það vantar náttúrulega mikið þegar Rut (Jónsdóttir) og Sara Sif (Helgadóttir) eru ekki með. Þær eru báðar landsliðskonur, en við eigum að geta gert betur. Þú segir að við höfum verið sofandi og við vorum rosalega linar varnarlega og spiluðum þá bara illa, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við komum aðeins upp í seinni hálfleik og fengum smá markvörslu, en heilt yfir var Valur bara miklu betri í dag.“

„Við getum tekið eitt og annað úr þessum leik, en við eigum bara að gera betur. Þessi leikur skiptir ekki öllu máli, við erum alltaf í þriðja sæti. Hvort sem við hefðum unnið eða ekki. Við þurfum bara að byggja okkur upp og við ætlum okkur að gera betur í úrslitakeppninni. Við eigum tvo leiki eftir og þurfum eiginlega að koma vel spilandi inn í úrslitakeppnina.“

Þá nýtti Stefán tækifærið og óskaði Valskonum til hamingju með deildarmeistaratitilinn, þó hann sé ekki formlega í höfn.

„Við erum búnar að standa okkur ágætlega í vetur, en Valur var löngu búinn að klára þennan deildarmeistaratitil. Það er einn titill eftir sem er Íslandsmeistaratitillinn og við ætlum að gera harða atlögu þar. En ég ætla bara að óska Val til hamingju með deildarmeistaratitilinn,“ sagði Stefán að lokum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×