Innlent

Leikaraverkfalli af­lýst

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Samninganefndir Leikfélags Reykjavíkur og FÍL ásamt ríkissáttasemjara eftir að samningar náðust seint í gærkvöldi.
Samninganefndir Leikfélags Reykjavíkur og FÍL ásamt ríkissáttasemjara eftir að samningar náðust seint í gærkvöldi.

Kjarasamningar tókust á milli leikara og dansara við Leikfélag Reykjavíkur seint í gærkvöldi. Ekki þarf að aflýsa neinum sýningum hjá Borgarleikhúsinu.

Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra leikara og sviðslistafólks, staðfestir niðurstöðuna í samtali við fréttastofu.

„Þetta snerist að miklu leyti um launaliðinn, og almennt um starfsumhverfi leikara og dansara. Og þetta snerist um að jafna hlut dansara, að gera þá að jafningjum, sem tekst á samningstímabilinu. Það var ýmislegt sem náðist inn á lokasprettinum sem er mjög ánægjulegt,“ segir Birna.

„Þá geta bara allir farið í leikhús og horft á þessa frábæru leikara og dansara í Borgarleikhúsinu í friði.“

Birna telur að allir ættu að geta gengið sáttir frá borði.

„Þetta er búið að vera langt og strangt tímabil, og þetta er búið að reyna mjög mikið á alla aðila. Blessunarlega tókst þetta í gær með aðstoð ríkissáttasemjara.“

Það var glatt á hjalla þegar skrifað hafði verið undir í Karphúsinu í gærkvöldi.Sólveig Arnarsdóttir

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá FÍL og stjórn LR segir að viðræður hafi staðið yfir undanfarna mánuði og lokið í gærkvöldi með farsælum hætti.

„Stjórnir FÍL og LR fagna niðurstöðunni og lýsa yfir ánægju með að samstaða hafi náðst.

Með þessum samningum er lagður traustur grunnur að áframhaldandi kraftmiklu og skapandi starfi innan veggja Borgarleikhússins,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×