Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, greindi fréttastofu frá því að Landhelgisgæslunni hefði borist tilkynning um slysið á slaginu tólf og í kjölfarið sent tvær þyrlur af stað.
Hvorki lögreglan á Austurlandi né slökkvilið gátu tjáð sig við fréttastofu í síma um slysið nema til að greina frá því að um tveggja bíla árekstur var um að ræða.
Fjórir í bílunum tveimur
Eftir að þessi frétt birtist sendi lögreglan á Austurlandi frá sér tilkynningu klukkan 13 að slysið hefði orðið á Hringveginum milli Djúpavogs og Breiðdalsvíkur, skammt frá bænum Krossi, skömmu fyrir hádegi.
Lögreglan á Austurlandi sendi síðan aðra tilkynningu frá sér þar sem kom fram að fjórir einstaklingar hafi verið í bílunum tveimur, tveir í hvorum bíl. Auk þyrlanna tveggja er sjúkraflugvél á leiðinni á vettvang til aðstoðar við flutninga slasaðra.
Þá kom einnig fram að vegurinn milli Djúpavogs og Breiðdalsvíkur væri lokaður vegna slyssins og vegfarendum bent á Breiðdalsheiði og Öxi til að komast leiða sinna.
Tvær þyrlur boðaðar út
„Það var óskað eftir aðkomu þyrlusveitar gæslunnar vegna umferðaslyss í norðanverðum Berufirði fyrir austan. Við boðuðum út tvær þyrlur vegna slyssins,“ sagði Ásgeir við fréttastofu um hálf eitt.
Hann gat ekki gefið frekari upplýsingar um slysið nema að það væri alvarlegt. Vegna þess að slysið hefði átt sér stað fyrir austan ættu þyrlurnar fyrir höndum langt flug.
„Önnur þyrlan er farin af stað og hin er að undirbúa það að leggja af stað á vettvang,“ sagði Ásgeir.
Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum úr tveimur tilkynningum lögreglunnar.