Handbolti

Vals­menn skutu bikarmeistarana aftur niður á jörðina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson var góður í marki Valsmanna í kvöld.
Björgvin Páll Gústavsson var góður í marki Valsmanna í kvöld. Vísir/Diego

Valsmenn komust upp í annað sæti Olís deildar karla í handbolta eftir öruggan sigur á nýkrýndum bikarmeisturum Fram.

Valur vann leikinn á endanum með fimm marka mun, 37-32, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik, 19-15.

Framarar urðu bikarmeistarar í fyrsta sinn í aldarfjórðung og náðu ekki að fylgja þeim sigri eftir á Hlíðarenda í kvöld.

Það var jafn fram í 6-6 en þá komu þrjú mörk Valsmanna í röð og þeir voru með frumkvæðið eftir það.

Björgvin Páll Gústavsson var ekki valinn í landsliðið í vikunni en hann átti góðan leik og var með nítján varin skot og 37 prósent markvörslu.

Það voru margir að skila mörkum hjá Valsliðinu en Úlfar Páll Monsi Þórðarson var markahæstur með sjö mörk. Ísak Gústafsson skoraði sex mörk og þeir Allan Norðberg og Agnar Smári Jónsson voru þrjú mörk hvor.

Ívar Logi Styrmisson skoraði tíu mörk fyrir Fram og Reynir Þór Stefánsson var með átta mörk en Rúnar Kárason var aftur á móti aðeins með þrjú mörk úr níu skotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×