Erlent

„Maðurinn með gullarminn“ látinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Harrison tryggði handlegginn á sér en gaf blóð með glöðu geði og voru dóttir hans og tvö barnabörn meðal þeirra sem nutu góðs af.
Harrison tryggði handlegginn á sér en gaf blóð með glöðu geði og voru dóttir hans og tvö barnabörn meðal þeirra sem nutu góðs af. Lifeblood

James Harrison, þekktur í Ástralíu sem „maðurinn með gullarminn“, er látinn. Á yfir 60 árum gaf Harrison blóðvökva alls 1.173 sinnum og bjargaði lífi 2,4 milljón barna. 

Harrison hét því aðeins 14 ára gamall að gerast blóðgjafi, þrátt fyrir að vera hræddur við nálar, eftir að hafa sjálfur þegið mikið magn blóðs þegar hann gekkst undir umfangsmikla brjóstholsaðgerð árið 1951.

Rannsóknir leiddu í ljós að blóð Harrison innihélt óvenjumikið magn mótefnisins anti-D. Hann varð í kjölfarið meðal fyrstu blóðgjafanna hvers blóðvökvi var notaður til að framleiða mótefni gegn anti-D.

Mótefnið er gefið Rhesus D neikvæðum konum sem ganga með Rhesus D jákvæð börn en við blóðblöndun getur það gerst að móðirin myndi anti-D, sem getur stofnað Rhesus D jákvæðu barninu í hættu.

Þannig lést helmingur allra umræddra barna áður en mótefni voru þróuð á 7. áratugnum.

Samkvæmt blóðgjafaþjónustu ástralska Rauða krossins, Lifeblood, eru færri en 200 blóðgjafar í landinu hvers blóð nýtist til framleiðslu á mótefnunum en þeir bjarga um það bil 45 þúsund börnum á ári.

Unnið er að þróun mótefnis sem krefst ekki blóðgjafar.

Hér má finna upplýsingar um Rhesusvarnir á meðgöngu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×