Innlent

„Ó­trú­legt“ að tapa með ní­tján at­kvæðum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Áslaug Arna tapaði formannskjörinu með nítján atkvæðum. 
Áslaug Arna tapaði formannskjörinu með nítján atkvæðum.  Vísir/Anton brink

Óhætt er að segja að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hafi tapað formannskjöri Sjálfstæðisflokksins með reisn. Eftir þakkarræðu Guðrúnar steig Áslaug upp í pontu, þakkaði fyrir sig og grínaðist. 

Hún hóf ræðuna á að óska Guðrúnu Hafsteinsdóttur innilega til hamingju með kjörið. Þá þakkaði hún Bjarna Benediktssyni og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur fráfarandi formanni og varaformanni fyrir samstarfið síðustu ár. 

„Ég er mjög stolt af því að hafa látið slag standa og farið í þessa vegferð og gefið kost á mér sem formaður Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Áslaug. Hún sagði fundinn sigur fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

„Það er líka gaman að segja frá því að hér tóku fleiri þátt í dag en allir sem kusu Vinstri græna í báðum Reykjavíkurkjördæmunum,“ sagði Áslaug sem uppskar hlátur og þakkaði síðan fyrir sig. 

Fréttamaður náði tali af Áslaugu að fundi loknum. 

„Þetta gat ekki tæpara staðið. Ég er stolt af minni baráttu og þessum fundi.“

Hvernig er að tapa með svona litum mun?

„Það er alveg ótrúlegt. Ég verð bara að segja það.“

Hún segist sem fyrr hlakka til að vinna með Guðrúnu og þakkar stuðningsmönnum sínum fyrir. 

Áslaug og Bjarni féllust í faðma þegar úrslitin voru kunngjörð.Vísir/Anton Brink

Tengdar fréttir

Vaktin: Framtíð Sjálfstæðisflokksins ræðst

Formannskjör er hafið á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll. Ríflega 2000 Sjálfstæðismenn greiða atkvæði milli þeirra Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, Guðrúnar Hafsteinsdóttur og Snorra Ásmundssonar í formannskjöri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×