Handbolti

Hafa tapað ellefu af tólf úrslitaleikjum en eini sigurinn kom gegn Stjörnunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Umfjöllun DV Sport um bikarúrslitaleikinn 2000.
Umfjöllun DV Sport um bikarúrslitaleikinn 2000. úrklippa af tímarit.is

Óhætt er að segja að Fram hafi gengið brösuglega í bikarúrslitum karla í handbolta. Framarar hafa tapað ellefu af tólf bikarúrslitaleikjum sem þeir hafa komist í.

Fram tryggði sér sæti í úrslitaleik Powerade-bikars karla með sigri á Aftureldingu í framlengdum leik, 36-33, á miðvikudaginn. 

Í úrslitaleiknum mætir Fram Stjörnunni sem sigraði ÍBV í hinum undanúrslitaleiknum, 34-29.

Þetta verður í fjórða sinn sem Fram og Stjarnan mætast í bikarúrslitum. Stjörnumenn höfðu betur 1987 og 2007 en Framarar unnu sinn eina bikarmeistaratitil í karlaflokki með sigri á Stjörnumönnum, 27-23, í Laugardalshöllinni 19. febrúar 2000.

Fyrirliði Fram var markvörðurinn Sebastian Alexandersson sem varði 21 skot í leiknum. Gunnar Berg Viktorsson skoraði ellefu mörk og jafnaði markamet í úrslitaleik bikarkeppninnar. Það hefur síðan verið slegið, síðast í fyrra þegar Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði sautján mörk í sigri Vals á ÍBV, 43-31.

Þjálfari Fram var Rússinn Anatoli Fedioukine. Í liði Framara var ungur Róbert Gunnarsson en hann skoraði þrjú mörk í bikarúrslitaleiknum.

Bikarúrslitaleikir Fram

  • 1974: Valur 24-16 Fram
  • 1975: FH 19-18 Fram
  • 1987: Stjarnan 26-22 Fram
  • 1998: Valur 25-24 Fram
  • 2000: Fram 27-23 Stjarnan
  • 2002: Haukar 30-20 Fram
  • 2004: KA 31-23 Fram
  • 2007: Stjarnan 27-17 Fram
  • 2008: Valur 30-26 Fram
  • 2012: Haukar 31-23 Fram
  • 2018: ÍBV 35-27 Fram
  • 2021: Valur 29-22 Fram
  • 2025: Fram ??-?? Stjarnan

Fram á tvo lið í bikarúrslitum því kvennalið félagsins mætir Haukum í úrslitaleiknum.

Framkonum hefur gengið öllu betur en Framkörlum í bikarúrslitaleikjum en þær hafa sextán sinnum orðið bikarmeistarar, oftast allra liða. Haukar hafa fjórum sinnum unnið bikarinn, síðast 2007.

Bikarúrslitaleikur kvenna hefst klukkan 13:30 og bikarúrslitaleikur karla 16:00. Báðir leikirnir verða í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×