Körfubolti

Aug­lýsa leik kvöldsins með minnsta skilti sem fyrir­finnst

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Skiltið smáa.
Skiltið smáa.

Álftanes auglýsir leik kvöldsins gegn Tindastóli í Bónus deild karla með líklega minnsta skilti sem fyrirfinnst.

Álftanes hefur verið á góðri siglingu að undanförnu og er komið upp í 5. sæti Bónus deildarinnar eftir fjóra sigra í röð.

Stórt og mikið próf bíður Álftnesinga í kvöld þegar þeir taka á móti Stólunum, toppliði deildarinnar. Álftnesingar vilja fá sem flesta í Forsetahöllina og létu því prenta skilti til auglýsa leikinn.

Mistök urðu hins vegar í framleiðslu og skiltið var talsvert minna en það átti að vera. Álftnesingar dóu þó ekki ráðalausir, settu skiltið á vörubretti og komu því fyrir á hringtorgi í bænum eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan.

Líkt og Álftanes hefur Tindastóll unnið fjóra leiki í röð. Stólarnir eru með 28 stig, jafn mörg og Stjörnumenn en eru á toppnum þar sem þeir unnu báða leikina gegn Garðbæingum.

Álftanes er aðeins tveimur stigum frá Val sem er í 4. sæti deildarinnar og því er enn möguleiki fyrir strákana hans Kjartans Atla Kjartanssonar að ná heimavallarrétti fyrir úrslitakeppnina.

Leikur Álftaness og Tindastóls hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á rás Bónus deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×