Hugmyndir Alþjóða frjálsíþróttasambandsins snúa að því að breyta útfærslunni á stökksvæðinu sjálfu í langstökki, nánar tiltekið plankanum sjálfum. Breytingar sem myndu valda því að langstökkvararnir hefðu stærra svæði til að stökkva á.
Núverandi plankinn, sem hefur verið við lýði til fjölda ára samanstendur af þrjátíu sentímetra svæði þar sem að langstökkvarar fá tuttugu sentímetra af hvítu svæði til þess að stökkva af til að stökkið teljist gilt. Í framhaldi af sentímetrunum tuttugu tekur við tíu sentímetra svæði í öðrum lit sem er svæði sem myndi gera stökkið ógilt ef stokkið er þaðan.

Næðu hugmyndir Alþjóða frjálsíþróttasambandsins fram að ganga yrði núverandi planka hent í burtu og við tæki fjörutíu sentímetra stökksvæði sem langstökkvarar mættu stökkva innan til þess að framkvæma gilt stökk.
„Þá verða líklegast einhverjir nemar í plankanum eða laser-ar sem myndu mæla frá fremsta hluta táarinnar sem fer síðust af plankanum til aftasta hluta sem lendir í sandinum. Þá eru þau komin með nákvæmari mælingu á stökkinu,“ segir Íslandsmethafinn í langstökki, Daníel Ingi Egilsson, sem er ekki hrifinn af hugmyndum sambandsins.

„Ég persónulega er alls ekki hlynntur þessari breytingu. Mér finnst hún í raun alveg út í hött þar sem að þú ert í rauninni að breyta greininni töluvert. Alþjóða frjálsíþróttasambandið er ekki að taka mikið til greina söguna á bakvið íþróttina. Þeir eru meira að hugsa um hvað áhorfandinn vill sjá, hvað verið er að biðja um í gegnum samfélagsmiðla og annað. Sem maður getur svo sem skilið miðað við hvernig samfélagið okkar er í dag. Það er í raun engin virðing borin fyrir íþróttafólkinu sjálfu í þessu.“
Tekur eiginleikann frá stökkvaranum
„Frjálsar íþróttir eru búnar að vera við lýði síðan að Ólympíuleikarnir voru stofnaðir um 1800 og eitthvað. Plankinn hefur verið sá sami síðan. Íþróttin okkar snýst um að hlaupa sem hraðast og taka á loft í stökkinu á þessum tuttugu sentímetrum sem við höfum til þess að stökkva. Fegurðin við íþróttina er að ef þú getir ógilt, stígur einhverja tíu sentímetra yfir og færir þig aftur um tíu sentímetra ertu kominn með gilt stökk.
Þú ert í raun að taka eiginleikann okkar, sem við höfum æft og þjálfað upp til margra ára, í burtu frá okkur. Því með þessum breytingum myndum við bara geta neglt á þetta og stokkið. Þú ert í raun að taka aðlögunina í burtu því við þurfum að aðlaga okkur að plankanum til að gera gilt stökk.“
Breyting sem myndi breyta töluverðu varðandi það hvernig Daníel Ingi og aðrir nálgast sín stökk.
„Í rauninni. þannig því þá ertu kominn með stærra svæði til þess að stökkva á heldur en núna. Því núna þarftu að vera nákvæmari á plankanum. Það eru ekkert margir sem hafa þann eiginleika að geta verið stöðugir og nákvæmir á plankanum. Ef við horfum á stökkseríur í keppnum keppni. Þá eru sumir að gera fjögur stökk ógild en bara tvö gild. Svo eru aðrir sem taka öll sex stökkin gild. Þá ertu strax kominn með og sérð að þessi sem er að taka sex stökk gild hefur þann eiginleika að gera allt gilt og stökkva akkúrat á þessu tuttugu sentímetra svæði heldur en hinn sem er búinn að gera fjögur ógild og nær bara tveimur gildum. Þetta snýst líka um það hvernig við æfum og þjálfum okkur í því að hitta á plankann.“
„Viljum ekki hafa þetta svona“
Mikið kurr hefur verið í heimi langstökkvara undanfarið vegna þessara hugmynda en nú þegar er búið að prufukeyra þær á tveimur innanhúss mótum. Annars vegar í Dusseldorf og síðan í París fyrir stuttu síðan.
„Ef ég á að vera hreinskilinn þá hef ég ekki hitt einn einasta mann vera hlynntur þessari breytingu af þeim sem að ég þekki. Það segir sig dálítið sjálft að við íþróttamennirnir viljum ekki hafa þetta svona því spennan í sportinu snýr meðal annars að því hvort við náum að gera gilt stökk. Auðvitað skilur maður hugmyndina út frá því sjónarmiði að þú viljir fækka ógildum stökkum en þetta hefur verið hluti af íþróttinni í þúsundir ára. Þetta er svona svipað eins og þú værir í fótbolta og ætlar að reyna fá fleiri mörk í leikinn. Þú ákveður því að stækka mörkin. Þá ertu búinn að gera leikinn auðveldari fyrir sóknarmennina en erfiðari fyrir markmennina.“
Hræddur um að af þessu verði
En nái þessar hugmyndir fram að ganga, hvað ætlar Daníel að gera þá?
„Það verður náttúrulega erfitt að aðlagast breytingunni og maður verður náttúrulega fúll til að byrja með. Á endanum sættir maður sig örugglega við þetta en þetta myndi að mínu mati drepa alla stemninguna í kringum íþróttina. Einhverjir hafa sagst ætla að hætta ef þetta verður gert svona. Það er aldrei að vita nema fleiri taki undir það.“
Telurðu að þessar hugmyndir verði að veruleika?
„Ég eiginlega bara veit það ekki. Ég er afskaplega hræddur um að þeir geri það. Því þeir hafa alveg farið í algjörar steypu breytingar í íþróttinni. Það er erfitt að segja til um það hvað þeir eiga eftir að gera.“
Viðtalið við Daníel í heild sinni má sjá hér fyrir neðan: