Körfubolti

Hatar samfélagsmiðla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ja Morant, leikmaður NBA liðsins Memphis Grizzlies, er lítríkur kappi en hann er lítið hrifinn af samfélagsmiðlum.
Ja Morant, leikmaður NBA liðsins Memphis Grizzlies, er lítríkur kappi en hann er lítið hrifinn af samfélagsmiðlum. Getty/Christian Petersen

NBA stórstjarnan Ja Morant hefur lofað aðdáendum sínum einu. Þeir geta gleymt því að sjá hann eitthvað á samfélagsmiðlum eftir að körfuboltaferlinum hans lýkur.

Morant hefur verið duglegur að koma sér í vandræði á samfélagsmiðlum en hann var tvívegis settur í bann fyrir að veifa byssu í beinni á Instagram. Seinna bannið var upp á 25 leiki enda varð hann sekur um slíkt í annað skiptið á stuttum tíma.

Það efast fáir um hæfileika Morant inn á körfuboltavellinum en sem betur fer þá hefur hann haldið sér til friðs á samfélagmiðlum síðan allt þetta vesen árið 2023.

Það virðist þó sem að þessi lífsreynsla hans hafi breytt áliti Morant á samfélagsmiðlum.

„Ég hata samfélagsmiðla. Eina ástæðan fyrir því að ég er á samfélagsmiðlum í dag er sú að ég þarf að birta þar upplýsingar frá styrktaraðilum mínum,“ sagði Ja Morant.

„Þið öll getið notið þess að sjá þessar færslur frá mér núna því um leið og skórnir mínir fara upp á hilluna þá sjáið þið mig ekki þar lengur,“ sagði Morant.

Í vetur er Morant með 20,5 stig og 7,4 stoðsendingar að meðaltali með Memphis Grizzlies.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×