Flautað verður til leiks á landsfundi Sjálfstæðisflokksins á föstudaginn en greidd verða atkvæði um formann, varaformann og ritara á sunnudaginn. Þingmennirnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir gefa kost á sér og þá hefur listamaðurinn Snorri Ásmundsson einnig tilkynnt um framboð.
„Já, það má ekki gleyma því. Það geta allir boðið sig fram,“ segir Jón þegar blaðamaður minnir hann á þriðja framboðið til formanns.
Sjálfur segir Jón bara verða að koma í ljós hvort hann bjóði fram krafta sína til varaformanns. Jens Garðar Helgason þingmaður er í framboði og þá bendir flest til þess að Diljá Mist Einarsdóttir geri slíkt hið sama þó hún sé ekki enn komin undan feldi. Ekki frekar en Jón. Borið hefur á því að tilkynningar stjórnmálamanna þessa dægrin komi fram á samfélagsmiðlum þeirra.
„Ég mæti bara galvaskur á landsfund. Það er með því skemmtilegra sem maður gerir í bransanum,“ segir Jón og bætir við að hann sé ánægður með frambjóðendur til embætta. Vilhjálmur Árnason ritari flokksins gefur einnig kost á sér til endurkjörs.
„Það er mjög fínt fólk að bjóða sig fram.“
Hann vill þó ekkert gefa uppi um sitt uppáhald frekar en hvenær sé von á ákvörðun frá honum.