Mbappé magnaður og meistararnir á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mbappé, Bellingham og Vini Jr. fagna.
Mbappé, Bellingham og Vini Jr. fagna. EPA-EFE/JUANJO MARTIN

Evrópumeistarar Real Madríd eru komnir áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir frækinn 3-1 sigur á Manchester City. Kylian Mbappé laug því ekki að hann væri að nálgast sitt besta form en hann skoraði öll þrjú mörk Real í kvöld.

Mikla athygli vakti að Erling Haaland var ekki í byrjunarliði Manchester City. Talið var næsta öruggt að hann væri ekki heill heilsu og það sannaðist í raun þegar hann kom ekki inn af bekknum í hálfleik. Hvað leikinn sjálfan varðar þá voru aðeins fjórar mínútur á klukkunni þegar miðvörðurinn Raúl Ascencio lyfti boltanum úr vörn heimamanna, Rúben Dias misreiknaði boltann hrapalega í vörn gestanna og Kylian Mbappé lyfti boltanum snyrtilega yfir markvörðinn Ederson.

Mbappé kom Real yfir snemma leiks.EPA-EFE/JUANJO MARTIN

Staðan orðin 1-0 í Madríd og 4-2 samanlagt í einvíginu. Mbappé fór svo langleiðina með að klára dæmið þegar 33 mínútur voru liðnar. Rodrygo náði þá að pota boltanum á framherjann frá Frakklandi þegar þeir voru tveir gegn fjöldanum öllum af City-leikmönnum. Mbappé tókst að setja Joško Gvardiol á rassinn áður en hann kom boltanum framhjá hjálparlausum Ederson. 

Ekki löngu síðar fékk Jude Bellingham kjánalegt gult spjald sem þýðir að hann missir af næsta leik Real í Meistaradeildinni. Staðan hins vegar enn 2-0 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks. Gestirnir virtust hafa kastað inn hvíta handklæðinu þegar Mbappé fullkomnaði þrennu sína eftir sendingu frá Federico Valverde eftir rúma klukkustund.

Miðjumaðurinn Nico minnkaðu muninn í 3-1 í blálokin þegar hann fylgdi eftir skoti Omar Marmoush. Það reyndist ekkert nema súrt sárabótarmark. Lokatölur 3-1 á Santiago Bernabéu og Evrópumeistararnir fljúga áfram í 16-liða úrslit þar sem Atlético Madrid eða Bayer Leverkusen bíða.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira