Handbolti

Ein efni­legasta hand­bolta­kona Frakka látin

Sindri Sverrisson skrifar
Jemima Kabeya var aðeins 21 árs þegar hún lést.
Jemima Kabeya var aðeins 21 árs þegar hún lést. IHF

Hin franska Jemima Kabeya, sem talin var einn efnilegasti markvörður Frakklands í handbolta, er látin aðeins 21 árs að aldri.

Frá þessu er meðal annars greint á vef alþjóða handknattleikssambandsins í dag. Þar kemur fram að Kabeya hafi verið í HM-hópi Frakklands á HM ungmenna árið 2022 þegar Frakkar enduðu í 13. sæti.

Samkvæmt frönskum miðlum er talið að Kabeya hafi dáið af völdum heilahimnubólgu. Hún var leikmaður franska félagsins Plan-de-Cuques sem segir í tilkynningu:

„Hún var afar hæfileikaríkur markvörður og fyrirmyndar liðsfélagi, en Jemima var umfram allt geislandi, ung kona sem var uppfull af góðvild og hlýju. Bros hennar og framganga skilur eftir ógleymanlegar minningar í hjörtum okkar og sögu Handball Plan-de-Cuques.“

Næstu tveimur leikjum Plan-de-Cuques hefur verið frestað, en liðið átti að spila gegn Saint-Amand á morgun og svo aftur 19. febrúar í Besancon.

Eric Nicolao, formaður Plan-de-Cuques, segir: „Við erum öll niðurbrotin. Þetta er skelfilegt áfall. Síðasta miðvikudag var hún með 50% markvörslu gegn Chambray. Það var ekkert sem gaf nokkuð svona lagað til kynna. Hún var einstaklega góð stelpa, alltaf brosandi og algjör fagmaður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×