Handbolti

Sá besti í heimi fer ekki fet næstu árin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mathias Gidsel var algjörlega stórkostlegur með danska landsliðinu á HM í handbolta.
Mathias Gidsel var algjörlega stórkostlegur með danska landsliðinu á HM í handbolta. Getty/Mateusz Slodkowski

Danska handboltahetjan Mathias Gidsel kæfði allar sögusagnir og er ánægður þar sem hann er.

Gidsel er nýkominn heim af heimsmeistaramótinu í handbolta þar sem hann endaði sem heimsmeistari, besti leikmaður mótsins og markakóngur.

Gidsel er ríkjandi besti handboltamaður heims og hefur verið markakóngur á öllum stórmótunum á einu ári.

Það voru einhverjar vangaveltur um að Gidsel væri mögulega á förum í stærra félag. Hann spilar með Füchse Berlin og var meðal annars orðaður við Flensburg-Handewitt.

Gidsel eyddi öllum vafa um framtíð sína með því að framlengja samning sinn við Füchse Berlin.

Nýi samningurinn hans er til sumarsins 2029 eða til fjögurra ára í viðbót. Hann framlengdi gamla samninginn sinn um eitt ár.

„Ég auðvitað mjög ánægður með það að hafa skrifað undir þennan samning. Ég hef mikla trú á verkefninu. Þetta var það besta fyrir bæði mig og félagið,“ sagði Mathias Gidsel í fréttatilkynningu Füchse Berlin.

Gidsel kom til Füchse Berlin árið 2002. Liðið er nú í fjórða sæti í þýsku deildinni en Gidsel dreymir um að vinna þýsku deildina með félaginu.

Hann hefur unnið allt með danska landsliðinu en nú fara menn að kalla eftir því að hann vinni eitthvað með félagsliðinu líka.

Síðasti titill Gidsel með félagsliði var þegar hann var danskur meistari með GOG Håndbold vorið 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×