Erlent

Segja Ísraela hafa brotið vopnahléssamninginn

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Hamas liðar slepptu Or Levy úr haldi síðasta laugardag.
Hamas liðar slepptu Or Levy úr haldi síðasta laugardag. AP/Abdel Kareem Hana

Hamas-liðar fresta því að láta ísraelska gísla lausa og segja Ísrael hafa brotið gegn vopnahléssamningnum sem nú er í gildi. Talsmaður varnarmálaráðherra í Ísrael segir ákvörðun Hamas brjóta gegn samkomulaginu um vopnahlé.

Til stóð að á laugardag myndi Hamas sleppa þremur ísraelskum gíslum fyrir mörg hundruð palestínska fanga. Nú þegar hefur Hamas sleppt 21 gísl og Ísrael sleppt 730 föngum síðan vopnahléið hófst 19. janúar. Það er um helmingur þeirra gísla og fanga sem sleppa á á meðan vopnahléið stendur.

Að sögn Abu Obeida, talsmanns hernaðarvængs Hamas, hafa Ísraelar ítrekað og kerfisbundið brotið samkomulagið um vopnahléið. AP fréttaveitan greinir frá.

Ísraelar eiga að hafa bannað íbúum á Gasa að snúa aftur til norðurhluta Gasastrandarinnar, ráðist á Palestínubúa með flugskeytum og byssum ásamt því að hindra aðgengi mannúðaraðstoðar að svæðinu.

Israel Katz, talsmaður varnarmálaráðherra Ísrael, sagði ákvörðun Hamas vera brot á vopnahléssamningum. Búið sé að skipa ísraelska hernum að vera á varðbergi á Gasa og að vernda skuli ísraelsk samfélög. 

Sex vikna vopnahlé milli Hamas og Ísrael hófst um miðjan janúar. Samkvæmt umfjöllun Reuters hafa nokkrir íbúar á Palestínu verið myrtir af Ísraelum á þessum þremur vikum síðan vopnahléið hófst. 

Ísraelar hafa áður sakað Hamas um brot á samningnum um vopnahlé þar sem Hamas sleppti ekki óbreyttum kvenkyns gíslum fyrst eins og um var samið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×