Afsögn Iohannis kemur á sama tíma og þingmenn yst á hægri væng stjórnmálanna hafa hótað að draga hann fyrir ríkisrétt.
„Til að hlífa Rúmeníu og rúmensku þjóðinni við krísu þá segi ég af mér sem forseti,“ sagði Iohannis fyrr í dag. Hann mun láta af embætti á miðvikudaginn.
Skipunartímabil Klaus Iohannis rann sitt skeið 21. desember, en stjórnlagadómstóll ógilti forsetakosningarnar sem fram fóru í haust eftir ásakanir um afskipti Rússa. Nauðsynlegt væri að endurtaka forsetakosningarnar og var Iohannes beðinn um að sitja áfram þar til nýr tæki við.
Fyrri umferð rúmensku forsetakosninganna eiga að fara fram 4. maí næstkomandi og sú síðari tveimur vikum síðar, takist engum frambjóðanda að ná hreinum meirihluta í fyrri umferðinni.
Stjórnarskrá Rúmeníu kveður á um að forseti efri deildar þingsins muni nú fara með embætti forseta þar til ný verður kjörinn.
Klaus Iohannis hefur gegnt forsetaembættinu í Rúmeníu frá árinu 2014.