Vísir greindi frá því fyrr í dag þegar Baldvin Þór Magnússon vann til gullverðlauna í þrjú þúsund metra hlaupi.
Erna Sóley Gunnarsdóttir hlaut síðan silfurverðlaun í kúluvarpi með kasti upp á 17,63 metra, 29 sentimetrum frá Íslandsmeti hennar í greininni. Senja Mäkitörmä frá Finnlandi skákaði Ernu með 17,74 metra kasti.
Irma Gunnarsdóttir vann bronsverðlaunin í langstökki með 6,24 metra löngu stökki. Taika Koilahti frá Finnlandi stökk 6,31 metra og varð Norðurlandameistari og Tilde Johansson frá Svíþjóð stökk 6,30 metra og fékk silfrið.
Íslandsmetið er í eigu Hafdísar Sigurðardóttir sem stökk eitt sinn 6,54 metra. Besta stökk Irmu var fyrir ári síðan, 6,45 metra langt.
Aníta Hinriksdóttir hlaut einnig bronsverðlaun, í átta hundruð metra hlaupi. Hún hljóp á 2:03,71. Annemarie Nissen frá Danmörku varð í öðru sæti og Malin Nyfors frá Noregi í fyrsta sæti en hljóp á 2:01,97. Íslandsmet Anítu er 2:00,05.
Alls komust því fjórir Íslendingar á verðlaunapall. Ein gullverðlaun, ein silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun. Alls tóku níu Íslendingar þátt í mótinu.
Ísland tefldi fram sameiginlegu liði með Danmörku gegn liðum frá Finnlandi, Svíþjóð og Noregi.