Handbolti

Króatíski herinn lék ís­lenska þjóð­sönginn til heiðurs Degi

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Sigurðsson er afskaplega hrifinn af króatísku þjóðinni og aðdáunin er gagnkvæm eins og króatíski herinn undirstrikaði.
Dagur Sigurðsson er afskaplega hrifinn af króatísku þjóðinni og aðdáunin er gagnkvæm eins og króatíski herinn undirstrikaði. Skjáskot/RTL/Króatíska varnarmálaráðuneytið

Á meðal þeirra sem lýst hafa mikilli ánægju sinni með störf Dags Sigurðssonar sem þjálfara króatíska handboltalandsliðsins er króatíski herinn sem sendi honum fallega kveðju.

Dagur, sem er fyrsti erlendi þjálfarinn til að stýra króatíska handboltalandsliðinu, stýrði liðinu til silfurverðlauna á HM en þessi magnaða íþróttaþjóð hafði þá verið án verðlauna á stórmótum í handbolta síðan 2016.

Sinfóníuhljómsveit króatíska hersins lét ekki sitt eftir liggja, í fögnuði yfir árangrinum, og spilaði íslenska þjóðsönginn í kveðju sem króatíska varnarmálaráðuneytið hefur birt á samfélagsmiðlum.

Með myndbandinu á Facebook stendur: „Við færum króatíska handboltalandsliðinu og hinum frábæra þjálfara Degi Sigurðssyni okkar bestu þakkir fyrir að gera okkur stolt að nýju! Króatíski herinn þakkar fyrir sig með því að spila íslenska þjóðsönginn til heiðurs þjálfaranum okkar.“

Blásið var til mikillar hátíðar í miðborg Zagreb á mánudaginn þegar Dagur og hinar hetjurnar sneru heim frá Noregi eftir úrslitaleikinn við Danmörku - annan af aðeins tveimur leikjum sem Króatía tapaði á HM. Þotur frá króatíska hernum fylgdu hópnum síðasta spölinn til Zagreb.

Samkvæmt króatískum miðlum voru um 40.000 manns á torginu auk þess sem bein sjónvarpsútsending var frá hátíðinni. Dagur ávarpaði fjöldann og sagðist elska alla og sagði einnig léttur: „Þið eruð algjörlega klikkað fólk!“ 

Þessi lína sló í gegn hjá Króötunum sem hoppuðu og sungu í gleðivímu. Á samfélagsmiðlum má einnig sjá mikla ánægju með Dag og kallað hefur verið eftir því að hann fái króatískan ríkisborgararétt sem fyrst.

Dagur hefur gefið það út að hann muni halda áfram sem landsliðsþjálfari Króatíu og nefnt að liðið þurfi að vera upp á sitt besta þegar kemur að næstu Ólympíuleikum, sem haldnir verða í Los Angeles árið 2028.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×