Innlent

Ríkis­stjórnin sýndi á spilin

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Formenn stjórnarflokkanna kynntu þingmálaskrá fyrir vorþingið.
Formenn stjórnarflokkanna kynntu þingmálaskrá fyrir vorþingið. Forsætisráðuneytið

Á blaðamannafundi í forsætisráðuneytinu í dag kynntu formenn stjórnarflokkanna fyrstu verk ríkisstjórnarinnar og sögðu frá þingmálaskrá fyrir vorþingið.

Frumvarp um stöðugleikareglu verður á dagskrá strax í febrúar og er ætlað að tryggja að fjármál ríkisins styðji við lægði vexti með því að boða engin ný útgjöld á árinu án þess að hagrætt verði á móti eða aukinna tekna aflað.

Ríkisstjórnin hyggst fara í aðgerðir til að draga úr umfangi AirBnB og annarrar skammtímaleigu til ferðamanna, lækka fjármögnunarkostnað hjá húsnæðisfélögum án hagnaðarsjónarmiða og liðka fyrir uppbyggingu einingahúsa sem liði í bráðaaðgerðum í húsnæðismálum.

Lagt verður fram frumvarp um að aldursviðbót örorkulífeyris haldist ævilangt og að jólaeingreiðsla verði greidd til öryrkja og eldra fólks með lágar tekjur sem nemur áætluðum tveimur milljörðum.

Þetta og margt fleira kom fram á blaðamannafundi Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og Ingu Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra sem haldinn var klukkan fjögur síðdegis í dag. Þar var planið margumrædda kynnt.

Tækla skammtímaleigu og liðka fyrir einingahúsum

„Það er full eining í þessari ríkisstjórn um öll þau mál sem birtast í þingmálaskrá fyrir vorþingið, sem er mikil breyting frá því hefur tíðkast á síðustu árum,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.

„Við höfum lagt upp nýtt verklag og ég hef meðal annars fundað einslega með hverjum einasta ráðherra til að setja fram sterka þingmálaskrá sem er trúverðug. Í því felast skýr skilaboð frá samstíga ríkisstjórn.“

Ríkisstjórnin ætlar, líkt og fram kom, að ráðast í bráðaaðgerðir í húsnæðismálum. Frumvarp fjármálaráðherra um svokallaða stöðugleikareglu, það er að engin ný útgjöld verði boðuð án tilsvarandi tekjuöflunar, verði á dagskrá strax í upphafi þingsins. Með því er ætlað að tryggja að fjármál hins opinbera stuðli að lægri vöxtum.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra kynnti aðgerðir í húsnæðismálum.Forsætisráðuneytið

Í því samhengi er tekið fram að hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar muni skila tillögum til hagræðingar þann 28. febrúar næstkomandi.

Það sem hæst ber á í téðum bráðaaðgerðum í húsnæðismálum er að ná stjórn á AirBnB og sambærilegri skammtímaleigu ferðamanna, tryggja skilvirka framkvæmd á veitingu hlutdeildarlána, lækka fjármögnunarkostnað hjá húsnæðisfélögum án hagnaðarsjónarmiða og breyta reglugerðinni til að liðka fyrir uppbyggingu einingahúsa. Þá á einnig að leiða í lög skráningarskyldu leigusamninga til að fá áreiðanlega mynd af þróun leigumarkaðar.

Hækkanir í fæðingarorlofskerfinu

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti aðgerðir í velferðarmálum. Hún segir aðgerðirnar skipta máli, kosta lítið og koma hratt til framkvæmda.

Ríkisstjórnin hyggst sjá til þess að meðferðarúrræðum verði ekki lokað í sumar og leggja fram frumvarp um að aldursviðbót örorkulífeyris haldist ævilangt en falli ekki niður þegar öryrki verður 67 ára. Þá verði einnig greidd jólaeingreiðsla til öryrkja og eldra fólks með lágar tekjur og stöðu hagsmunafulltrúa eldra fólks komið á. Þá stendur til að samþykkja á vorþingi lagafrumvarp til að stöðva kjaragliðnun launa og lífeyris.

Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti breytingar á fæðingarorlofskerfinu.Forsætisráðuneytið

Fyrstu breytingar á fæðingarorlofskerfinu muni birtast í frumvarpi í mars til að bæta hag fjölburaforeldra og lengja fæðingarorlof foreldra sem veikjast á meðgöngu eða eftir fæðingu. Að auki eigi að tryggja að hækkanir í fæðingarorlofskerfinu gangi til allra foreldra í fæðingarorlofið óháð fæðingardegi barns. Fæðingarstyrkir námsmanna og fólks utan vinnumarkaðar hækki um 30 þúsund krónur á mánuði.

„Og síðast en ekki síst risastórt velferðar- og mannréttindamál sem ríkisstjórnin leggur fram í mars: Við ætlum að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks,“ segir Inga.

Frumvarp um Hvammsvirkjun strax á dagskrá

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir ríkisstjórnina ætla að höggva á hnútinn í orkumálum og gera breytingar í sjávarútvegi sem auka gagnsæi og réttlæti í greininni.

Frumvarp verði lagt fram strax á fyrstu dögum þingsins til að eyða óvissu í kringum Hvammsvirkjun og aðrar mikilvægar framkvæmdir. Orkuforgangur almennings verði á dagskrá ásamt umfangsmiklu einföldunarfrumvarpi til að hraða og samræma málsmeðferð í leyfisveitingum, án þess að slá af kröfum um umhverfisvernd og almannasamráð. Þá verði lögð fram rammaáætlun þar sem virkjunarkostir verði flokkaðir í verndarflokk eða nýtingarflokk samkvæmt tillögum verkefnastjórnar rammaáætlunar.

Í sjávarútvegsmálum hyggst ríkisstjórnin leggja fram frumvarp í febrúar sem snýr að eignarhaldi tengdra aðila á útgerðarfyrirtækjum, frumvarp um strandveiðar og breytingar á veiðigjaldi til að það endurspegli betur raunveruleg aflaverðmæti. Undið verði ofan af breytingum á búvörulögum sem dæmdar voru ólöglegar í héraðsdómi.

Ríkisstjórnin ætlar að gera nýja fríverslunarsamninga við Indland, Taíland og Síle og uppfæra samninginn við Úkraínu. Þá hyggst ríkisstjórnin ljúka við innleiðingu bókunar 35 í vor.

Stefnt er að því að stór auðlinda- og atvinnumál verði lögð fram á haustþingi sem kalli á meiri vinnu í ráðuneytum eða samráð við fólk og fyrirtæki. Lagafrumvarp um lagareldi verði lagt fram þar sem gert sé ráð fyrir tímabundnum rekstrarleyfum, afnámi á undanþágum frá skattlagningu orkumannvirkja, jöfnun á dreifikostnaði raforku, ný heildarlög um loftslagsmál og nýja samgönguáætlun.

„Við ætlum að ganga í verkin og klára ýmis mál sem hafa verið stopp alltof lengi,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.

Fækkun ráðuneyta og hluti námslána verði styrkur

Fækkun ráðuneyta verði lögð fyrir Alþingi og gert er ráð fyrir að hagræðing af því nemi um 350 milljónum á ári. Þá á að ljúka við sölu Íslandsbanka með ferli þar sem almenningur hefur forgang. Menntamál verði áberandi og boðuð eru frumvörp um nýtt fyrirkomulag við námsmat grunnskóla, um fjölbreytt framboð á námsgögnum í leik-, grunn- og framhaldsskólum, sem verði gerð gjaldfrjáls í áföngum, og um breytingar á menntasjóði námsmanna. Stefnt er að því að 20 prósent námslána breytist í styrk í lok hverrar annar en 10 prósent við námslok.

Með breytingum á lögum um sviðslistir standi til að bæta umgjörð og koma rekstri óperustarfsemi fyrir innan Þjóðleikhússins. Þá sé vinna hafin við endurskoðun á styrkjum til einkarekinna fjölmiðla og þak á styrkjum til þeirra lækkað strax í vor en styrkirnir framlengdir til eins árs.

Sorgarleyfi fyrir foreldra og fjölgun lögreglumanna

Frumvarp um sorgarleyfi fyrir foreldra sem missa maka og frumvarp um lágmarksskatt á fjölþjóðleg stórfyrirtæki verði einnig lögð fram. Ríkisstjórnin hyggst ljúka við heildarendurskoðun á lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og farið verður í fyrsta lið í endurskoðun á lögum um leigubíla sem snýr meðal annars að því að koma aftur á stöðvarskyldu. Stefnt er að því að sameina sýslumannsembætti úr níu í eitt án þess að það komi niður á þjónustu á landsbyggðinni.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra kynnti breytingar í orku- og sjávarútvegsmálum.Forsætisráðuneytið

Lögreglumönnum verði fjölgað um fimmtíu strax á þessu ári og mun dómsmálaráðherra leggja fram frumvarp strax í febrúar sem gerir lögreglu kleift að krefjast farþegaupplýsinga og þá á að gera það heimilt að afturkalla alþjóðlega vernd fyrir einstaklinga sem fremja alvarleg afbrot eða síendurtekin.

Loks er stefnt á umbætur í heilbrigðismálum til viðbótar við sumaropnun meðferðarúrræða. Þar eru teknar fram reglugerðarbreytingar til að draga úr skriffinnsku og vottorðafargani, skyldu til að halda rafrænar sjúkraskrár svo hægt sé að samnýta upplýsingar og breytingar á lögum um neyslurými.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×