Frá þessu greindi Fótbolti.net í morgun og hefur heimildir fyrir því að óánægja hafi verið með það innan Stjörnunnar að Björn skyldi panta utanlandsferð þegar undirbúningstímabilið væri í gangi. Það hafi á endanum leitt til þess að leiðir skildi.
Vísir bar málið undir Helga Hrannarr Jónsson, formann meistaraflokksráðs karla hjá Stjörnunni, en hann vildi ekkert láta eftir sér hafa um það og sagði stefnu félagsins að tjá sig ekki um ráðningarmál.
Þó að fyrsti leikur Stjörnunnar í Bestu deildinni, við FH, sé ekki fyrr en 7. apríl þá er undirbúningstímabilið löngu hafið og fyrsti leikur liðsins í Lengjubikarnum er á föstudagskvöld, gegn ÍBV.
Björn, sem er uppalinn FH-ingur, kom fyrst til Stjörnunnar sem leikmaður eftir tímabilið 2018, frá Grindavík. Hann lagði skóna á hilluna haustið 2023 og var í kjölfarið kynntur sem aðstoðarþjálfari liðsins, og sinnti því hlutverki á síðustu leiktíð sem var jafnframt fyrsta heila tímabil Jökuls Elísabetarsonar sem aðalþjálfara, eftir að hann var hækkaður um tign í maí 2023.
Björn er enn titlaður aðstoðarþjálfari á vef Stjörnunnar en ljóst er að félagið leitar nú að manni í hans stað.