Lífið

Hreyfði sig í 30 mínútur á hverjum einasta degi í heilt ár

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þórdís Valsdóttir hreyfði sig á hverjum degi í 30 mínútur.
Þórdís Valsdóttir hreyfði sig á hverjum degi í 30 mínútur.

Fjölmiðlakonan Þórdís Valsdóttir setti sér það markmið að hreyfa sig í að minnsta kosti 30 mínútur á hverjum einasta degi í heilt ár og missti aldrei úr dag.

Þórdís hreyfir sig á ýmsan máta og enginn dagur eins.

Vala Matt ræddi við hana í Íslandi í dag í síðustu viku en margir hafa hrifist af krafti hennar og jákvæðni og eftir pósta á Instagram síðunni hennar hafa margir hreinlega farið af stað og byrjað að hreyfa sig meira.

„Síðustu ár hef ég tekið einn og einn mánuð þar sem ég hreyfi mig í þrjátíu mínútur á dag í þrjátíu daga. Það hefur verið fyrir mig sjálfa að sanna fyrir púkanum á öxlinni að ég hafi alltaf tíma. Maður er alltaf rosalega fljótur að finna afsakanir til að fara ekki út,“ segir Þórdís og heldur áfram.

„Ég var sjálf mikið í þeirri gryfju að ég hefði ekki tíma, ég er með lítil börn og er í vinnu og svo félagslíf og fjölskylda og allt. Ég prófaði að gera þetta nokkrum sinnum í nokkra mánuði. En síðan einn daginn var ég búin með þessa þrjátíu daga og þá hugsaði ég, æji ég tek þrjátíu daga í viðbót. Þegar ég var búin með sextíu daga, þá hugsaði ég, ég geri þetta bara í hundrað daga. Og eftir hundrað daga þá ákvað ég að ég myndi gera þetta í heilt ár,“ segir Þórdís og bætir við að árið hafi verið 366 dagar þar sem það var hlaupár.

 Þórdís býr einnig til mjög flottar handgerðar dagbækur með markmiðasetningu og fleiru.

„Undanfarin ár hef ég verið mjög dugleg við markmiðasetningu. Ég legg mig virkilega fram við það að skrifa markmiðin mín niður á mjög fallegan máta og það er mjög tímafrekt áhugamál hjá mér,“ segir Þórdís um dagbækurnar en hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.