Þetta segir Blaz Janc, fyrirliði Slóvena og leikmaður Evrópumeistaraliðs Barcelona, og fleiri í slóvenska liðinu.
Íslendingar og Slóvenar í Zagreb munu eflaust leggjast á eitt um að styðja Slóveníu til sigurs gegn Króatíu.
Veðbankar telja Króata mun sigurstranglegri, eftir að þeir fóru illa með Ísland á föstudagskvöld og unnu 32-26 sigur, en Slóvenar, sem urðu í 6. sæti á EM fyrir ári síðan og komust í undanúrslit ÓL í París í fyrra, eru ekki hættir.
Slóvenía á ekki lengur von um sæti í 8-liða úrslitum en ef liðið nær í stig gegn Króatíu í kvöld þá dugar Íslandi sigur gegn Argentínu í fyrsta leik dagsins, til að fylgja Egyptum í 8-liða úrslitin. Von Slóveníu um að komast í 8-liða úrslit hvarf með eins marks tapinu gegn Egyptalandi á föstudag, þar sem lokamark Slóvena fékk ekki að standa.
„Það verður svo sannarlega erfitt að jafna sig á þessu tapi en við eigum El Clásico Balkanskagans fyrir höndum. Þó að þessi leikur geti ekki lengur tryggt okkur áfram í 8-liða úrslitin þá held ég að við þráum það allir að geta kvatt þetta mót með góðri frammistöðu,“ sagði Janc við Siol.net.
„Við munum algjörlega leggja allt í sölurnar og ég get alveg lofað því að við munum berjast allt til enda. Það er ekkert sem toppar það að spila fyrir framan 15.000 áhorfendur við nágranna okkar í Króatíu, og við lofum að gefa okkur alla í þetta og halda fullkominni einbeitingu,“ sagði Janc. Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari Íslands er þó ekki bjartsýnn á að fá hjálp.
Ef að Ísland vinnur Argentínu, klukkan 14:30 í dag, kemst liðið í 8-liða úrslit ef annað hvort Grænhöfðaeyjar ná í stig gegn Egyptalandi eða Slóvenía í stig gegn Króatíu í seinni leikjum dagsins. Von Íslands ætti því að geta lifað fram á kvöld.
„Gerum allt til að eyðileggja partýið“
Uros Zorman, þjálfari Slóvena, segir alla pressuna vera á Króötum.
„Við búumst við fullri höll. Króatarnir verða undir pressu því þeir verða að vinna til að komast í 8-liða úrslitin. Við spilum upp á heiðurinn í þessum síðasta leik okkar á mótinu. Besta leiðin til að kveðja mót er að vinna, og ég er viss um að mínir menn gefa allt í þennan grannaslag sem er aldrei einhver venjulegur leikur,“ sagði Zorman.
Miha Zarabec tók í sama streng:
„Það vilja allir svona leiki og við gerum allt til að eyðileggja partýið hjá Króötum. Það er best að spila án pressu. Við verðum að njóta leiksins og hafa í huga að ef við eigum ekki skilið að spila í 8-liða úrslitum þá eigi þeir það ekki skilið heldur. Við hugsum bara um eitt, að skemma fyrir þeim eins og við getum,“ sagði Zarabec.