Wilfied Singo skoraði það sem reyndist sigurmark Monaco þegar lærisveinar Unai Emery frá Birmingham-borg á Englandi komu í heimsókn. Lokatölur 1-0 og bæði lið nú með 13 stig þegar þau aðeins einn leik eftir áður en hefðbundinni deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu lýkur.

Að henni lokinni fara efstu átta liðin beint í 16-liða úrslit á meðan liðin í 9. til 24. sæti fara í umspil um sæti í 16-liða úrslitum. Eftir leik kvöldsins er Aston Villa í 7. sæti á meðan Monaco er í 9. sæti.
Á Gewiss-vellinum í Bergamo var Sturm Graz í heimsókn og var staðan 1-0 Atalanta í vil þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks. Hinn sjóðheiti framherji Mateo Retegui með markið.

Mark hafði þegar verið dæmt af heimamönnum þegar Mario Pašalić tvöfaldaði forystuna á 58. mínútu. Fimm mínútum síðar hafði Charles De Ketelaere bætt þriðja marki Atalanta við.
Ademola Lookman bætti því fjórða við á lokamínútu venjulegs leiktíma og Marco Brescianini skreytti kökuna með fimmta marki heimamanna þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma, lokatölur 5-0.
Atalanta er í 3. sæti með 14 stig.
