Í yfirliti sem Seðlabankinn hefur birt segir að heildarvelta á millibankamarkaði með gjaldeyri hafi dregist saman á milli ára og minni sveiflur verið á gengi krónunnar en undanfarin ár. Stöðugleiki hafi einkennt gjaldeyrismarkaðinn lengst af eða þar til í ágúst, þegar gengið lækkaði, en í september hafi krónan tekið að styrkjast. Sú þróun hafi haldið áfram fram undir lok árs.
Greip einu sinni inn í
Seðlabankinn hafi einu sinni gripið inn í gjaldeyrismarkaðinn þegar hann keypti gjaldeyri fyrir um 9,2 milljarða króna í febrúar, til að bregðast við innflæði erlends fjármagns í ríkisskuldabréf.
Vaxtamunur við útlönd hafi áfram verið nokkur og erlendir aðilar hafi keypt meira af innlendum ríkisskuldabréfum en árið á undan. Lífeyrissjóðir hafi áfram verið umfangsmiklir kaupendur gjaldeyris og kaup þeirra hafi aukist lítillega milli ára. Hrein staða framvirkra gjaldmiðlasamninga viðskiptabanka hafi lækkað yfir árið í heild.
Stór yfirtaka hafði áhrif
Viðskipti í tengslum við yfirtökutilboð John Bean Technologies, JBT, á Marel hafi haft áhrif á gjaldeyrismarkaðinn á árinu, en yfirtakan hafi verið stór á íslenskan mælikvarða.
Ríkissjóður hafi tvívegis gefið út skuldabréf í evrum á árinu, samtals að fjárhæð 800 milljónir evra og vaxtaálag á erlendar skuldabréfaútgáfur ríkissjóðs og viðskiptabankanna hafi lækkað. Gjaldeyrisforði Seðlabankans hafi numið 886 milljörðum króna í árslok eða 20 prósent af vergri landsframleiðslu.