Ísland vann Kúbu með 21 marks mun í gær, 40-19. Þetta er langt frá því fyrsti stórsigurinn á HM en margir leikjanna á mótinu hafa verið afar ójafnir. Til að mynda unnu heimsmeistarar Danmerkur alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni með samtals 55 marka mun.
„Þetta er algjört bíó. Þetta er eiginlega ekki hægt. Það er einn og einn alvöru leikur. Mér finnst þetta lélegt og leiðinleg byrjun á móti,“ sagði Ásgeir Örn í Besta sætinu, hlaðvarpi íþróttadeildar Vísis.
„Við erum eitthvað að gagnrýna liðin fyrir að vinna bara með fimmtán marka mun. Mér finnst þetta leiðinlegt. Ég væri til í að minnka þetta aftur.“
Ásgeir Örn benti ennfremur á að slöku liðin væru ekkert að verða betri, þrátt fyrir að komast oftar á HM.
„Auðvitað er þetta einhvers konar langtíma plan, að til lengri tíma búum við til fleiri lið sem spila meira. En á meðan á því stendur er þetta hryllingur,“ sagði Ásgeir Örn.
Ísland vann fyrstu tvo leiki sína á HM með samtals 34 marka mun, líkt og Slóvenía, andstæðingur morgundagsins.
Hlusta má á Besta sætið í spilaranum hér fyrir ofan sem og hér fyrir neðan. Nálgast má þáttinn á öllum helstu hlaðvarpsveitum.