Körfubolti

Búnir að fá nóg af stælunum í Grind­víkingum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
DeAndre Kane og Gedeon Dimoke lenti saman.
DeAndre Kane og Gedeon Dimoke lenti saman. stöð 2 sport

Pavel Ermolinskij og Teitur Örlygsson, sérfræðingur Bónus Körfuboltakvölds, eru búnir að fá nóg af stælunum í Grindvíkingum

Talsverður hiti var í leik Hattar og Grindavíkur á fimmtudagskvöldið og DeAndre Kane lenti meðal annars nokkrum sinnum í orðaskaki við Hattarmenn.

Pavel er orðinn þreyttur á látunum í Grindvíkingum sem unnu leikinn á fimmtudaginn, 63-64.

„Þú ferð bara austur, vinnur leikinn, drullar þér upp í rútu og ferð heim. Hver þarf á þessu að halda? Síst Grindavík. Ef það er eitthvað lið sem ætti að fara upp í rútu, spila leik, vinna, drulla sér heim er það Grindavík. Allir þessir stælar þarna, allt þetta kjaftæði, þetta gerir ekkert fyrir mig. Þetta er bara orðið skrítið,“ sagði Pavel í Bónus Körfuboltakvöldi í gær.

Kane og Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur, hlupu á einum tímapunkti inn í leikhlé hjá Hattarmönnum.

„Þetta er bara kjánalegt. Vertu bara hógvær. Þú hefur ekki efni á því að vera með einhvern hroka á þessum stað í deildinni. Þeir hefðu átt að haga sér eins og Óli spilaði í leiknum. Harðir, vinna leikinn með baráttu,“ sagði Teitur.

„Allir þessir auka stælar. Grindavík hefur bara ekki efni á því,“ bætti Pavel við.

Klippa: Bónus Körfuboltakvöld - Umræða um stælana í Grindavík

Teitur sagði að stuðningsmenn Grindavíkur væru meira að segja orðnir pirraðir á stælunum í liðinu.

„Ég þekki marga Grindvíkinga. Þeir eiga þessar samræður líka. Þeir horfa á alla þessa leiki. Ég get lofað ykkur að meirihlutinn af Grindvíkingum þolir þetta ekki heldur. Þeir þola þetta ekki. Þeir eru svo þreyttir á þessu. Að sviðsljósið á liðinu skuli alltaf ganga út á eitthvað svona kjaftæði en ekki körfubolta,“ sagði Teitur.

Innslagið úr Bónus Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×