Handbolti

Risa Evrópu­leikur á Hlíðar­enda: „Tökum Spán­verjana á taugum með fullu húsi“

Aron Guðmundsson skrifar
Frá leik Vals á tímabilinu
Frá leik Vals á tímabilinu Vísir/Anton Brink

Vals­konur geta með sigri á heima­velli í dag gegn spænska liðinu Malaga tryggt sér sæti í átta liða úr­slitum Evrópu­bikar­keppninnar í hand­bolta. Um seinni leik liðanna er að ræða, þeim fyrri lauk með jafn­tefli úti á Spáni. Boðið verður upp á al­vöru Evrópu­stemningu á Hlíðar­enda. Ótrúlegri sigurgöngu Vals hér heima lauk á dögunum en hvergi betra en að svara því á heimavelli í Evrópukeppni. 

„Þetta leggst vel í mig. And­stæðingurinn er feyki öflugur en við gerðum jafn­tefli við þær á úti­velli sem var kannski frekar óvænt en við ætlum að vera vel undir­búin, reyna að klára ein­vígið,“ segir Ágúst Þór Jóhanns­son, þjálfari Vals.

„Þær eru í 2.sæti í deildinni í dag, eru með portúgalska lands­liðs­menn bæði á miðjunni og vinstra megin, spænskan lands­liðs­mann á línunni og brasilíska örv­henta skyttu sem er í A-lands­liðinu þar líka ásamt því að vera með tvær spænskar í viðbót. Horna­mann og mark­mann sem eru fyrr­verandi lands­liðs­menn.

Þetta er mjög reynslu­mikið lið sem við erum að mæta, mjög vel spilandi, gott lið sem spilar sterka 6-0 vörn og eru með góðar skyttur. Við þurfum bara að hitta á góðan dag. Með því að við séum á okkar besta degi og með góðan stuðning áhorf­enda, getum við vel gert góða hluti.“

Frammistaða Vals í fyrri leiknum gefi góð fyrir­heit þar sem að Hlíðar­enda liðið var óheppið að fara ekki af hólmi með sigur.

„Við leiddum meira og minna allan leikinn. Ég var mjög ánægður með úr­slitin en eins og leikurinn þróaðist hefði ekkert verið óeðli­legt ef við hefðum unnið hann með tveimur til þremur mörkum. Við þurfum auðvitað að hitta á góðan leik, vera vel undir­búin sem og við verðum og ég vona virki­lega að fólk fjöl­menni á pallana. Þetta er frábært lið, gaman fyrir unga og efni­lega hand­bolta­krakka að koma og sjá þessa leik­menn. Ég vona að for­eldrarnir drífi sig á völlinn, taki krakkana með og að við fáum hérna al­vöru Evrópu­stemningu. Við tökum vonandi bara Spán­verjana á taugum með fullt hús hérna og al­vöru Evrópu­stemningu.“

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari ValsVísir/Vilhelm

Vissu að á einhverjum tímapunkti kæmi að tapleik

Ótrú­legri sigur­göngu Vals hér heima, sem stóð yfir í 452 daga og taldi 40 leiki lauk á miðviku­daginn síðastliðinn gegn Haukum.

„Þær voru bara mun betri en við. Það er ekkert til að skammast sín fyrir. Við vissum auðvitað að á ein­hverjum tíma­punkti kæmi að þessu tapi, kannski var það bara ágætt til þess að ýta aðeins við okkur og koma okkur aðeins aftur upp á tær. Það breytir engu við mætum á fullu gasi á morgun. Það er ekkert auðvelt, þó að við séum með sterkt og vel skipað lið, að koma í alla leiki á fullu gasi en það hafa þær alltaf gert. Það er stórt hrós til liðsins.

Faglegar í allri sinni nálgun

Ekki á hverjum degi sem lið fer á slíka sigur­göngu.

„Þetta er auðvitað ein­stakt, mjög stórt og þetta er ekkert auðvelt. Ég hef bara sagt það um leik­manna­hópinn hjá mér að þetta eru mjög reynslu­miklir leik­menn í bland við mjög unga og efni­lega. Þær eru mjög agaðar, vinnu­samar og mjög fag­legar í allri sinni nálgun. Það er ekkert auðvelt, þó að við séum með sterkt og vel skipað lið, að koma í alla leiki á fullu gasi en það hafa þær alltaf gert. “

Ágúst Þór með sínu liðivísir/hulda

„Það er stórt hrós til liðsins. Það eru auðvitað á sama tíma mörg önnur góð lið í deildinni. Haukarnir voru feiki­lega öflugar á móti okkur og áttu bara skilið að vinna en við höldum áfram og ætlum okkur að vera áfram á toppnum.“

Seinni leikur Vals og Malaga fer fram í N1-höllinni að Hlíðar­enda í dag og hefst klukkan hálf fimm. Sæti í átta liða úr­slitum Evrópu­bikar­keppninnar bíður sigur­liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×