Í hálfleik í leik Íslands og Grænhöfðaeyja í G-riðli heimsmeistaramótsins í gær var Bjarki Már Elísson kominn með tvær stoðsendingar samkvæmt beinni lýsingu á vef IHF þrátt fyrir að hafa setið á bekknum allan fyrri hálfleikinn.
Tölfræðingum heimsmeistaramótsins varð því greinilega á í messunni þegar þeir fylgdust með leiknum í Zagreb í gær.
Bjarki Már lék seinni hálfleikinn og skoraði þá fjögur mörk. En stoðsendingarnar tvær standa enn í opinberum gögnum frá mótinu.
Samkvæmt HB Statz gaf Bjarki Már ekki stoðsendingu í leiknum og heldur ekki samkvæmt tölfræði Vísis.
Janus Daði Smárason og Viggó Kristjánsson gáfu flestar stoðsendingar í íslenska liðinu í leiknum í gær, eða sex hvor. Elvar Örn Jónsson kom næstur með fjórar stoðsendingar.
Ísland vann leikinn í gær örugglega, 34-21, eftir að hafa leitt með tíu mörkum í hálfleik, 18-8. Næsti leikur Íslendinga er gegn Kúbverjum annað kvöld.