Skoðun

Með vægi í sam­ræmi við það

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Hvert ríki Evrópusambandsins kemur með tillögu að einum einstaklingi í framkvæmdastjórnina þegar hún er skipuð sem þarf síðan að hljóta samþykki viðeigandi stofnana sambandsins. Aðkoma ríkjanna er ekki önnur í þeim efnum. Með öðrum orðum eru þeir ekki annað en embættismenn Evrópusambandsins.

Mjög langur vegur er þannig frá því að skipan framkvæmdastjórnarinnar sé til marks um áhrif fámennari ríkja innan Evrópusambandsins. Jafnvel þó svo væri sitja þar 27 einstaklingar og hver með afmarkaðan málaflokk. Við hefðum þá sitthvað um einn málaflokk að segja innan hennar en væntanlega ekkert um hina.

Hið sama á við um forseta þings Evrópusambandsins. Þeir einstaklingar sem gegna því embætti gera það ekki sem fulltrúar heimalanda sinna og hagsmuna þeirra heldur þeirra þingflokka sem þeir tilheyra í þinginu. Rétt eins og til dæmis á Alþingi. Hvort viðkomandi komi frá fjölmennu eða fámennu ríki skiptir ekki máli.

Framkvæmdastjórnin starfar einkum innan þess ramma sem ráðherraráð Evrópusambandsins setur en í ráðinu, sem er jafnan talið valdamesta stofnun sambandsins og hvar fulltrúar ríkjanna eiga sæti ólíkt stjórninni, fer vægi þeirra fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra sem vitanlega kemur sér verst fyrir fámenn ríki.

Væri Ísland innan Evrópusambandsins yrði vægi landsins í ráðherraráðinu einungis um 0,08% eða á við það að hafa aðeins 5% hlutdeild í þingmanni á Alþingi. Finna má til að mynda hins ágætustu reiknivél á vefsíðu ráðsins sem hægt er að nota til þess að sjá vægi hvers ríkis sambandsins innan þess í þessum efnum.

Hafa má í huga að þau ríki innan Evrópusambandsins sem gjarnan er vísað til sem smáríkja eða lítilla ríkja eru í flestum tilfellum milljónaþjóðir og þannig margfalt fjölmennari en við Íslendingar. Raunar yrði Ísland fámennasta ríkið innan sambandsins ef til inngöngu landsins kæmi og allajafna með vægi í samræmi við það.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×