Erlent

For­stjóri OpenAI sakaður um ára­langt of­beldi gegn systur sinni

Jón Þór Stefánsson skrifar
Sam Altman er stofnandi og forstjóri OpenAI, fyrirtækisins á bak við ChatGPT.
Sam Altman er stofnandi og forstjóri OpenAI, fyrirtækisins á bak við ChatGPT. Getty

Systir stofnanda og forstjóra OpenAI hefur höfðað mál á hendur honum vegna meints kynferðisofbeldis sem hún segir að hafi átt sér stað frá 1997 til 2006.

Í málshöfðun Ann Altman segir að kynferðisofbeldið hafi byrjað þegar hún var þriggja, en bróðir hennar, Sam Altman, þá verið tólf ára. Síðasta brotið hafi átt sér stað þegar hann var orðinn fullorðinn, en hún enn undir lögaldri.

OpenAI er bandarískt tæknifyritæki sem er mjög framarlega í þróun gervigreindar, en fyrirtækið er á bak við spjallmennið ChatGPT.

BBC fjallar um málið og hefur eftir Sam Altman að hann neiti ásökunum systur sinnar. Í sameiginlegri yfirlýsingu hans og móður systkinanna segir að Ann glími við andleg veikindi.

„Allar þessar fullyrðingar eru algjörlega ósannar,“ segir þar. „Að annast fjölskyldumeðlim sem glímir við andleg veikindi er rosalega erfitt.“

Hann segist styrkja systur sína fjárhagslega, borga reikninga hennar og leigu. Þá segist hann hafa boðist til að kaupa handa henni hús, en að hún krefjist í sífellu meiri peninga.

Í stefnunni er því haldið fram að Sam hafi misnotað aðstöðu sína og brotið kynferðislega á systur sinni um árabil. Hann er meðal annars sakaður um nauðgun.

Samkvæmt BBC hefur Ann Altman áður sakað bróður sinn um svipaða háttsemi á samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×