Forest vann 0-3 sigur á Wolves í gær. Strákarnir hans Nunos Espírito Santo hafa komið öllum á óvart á tímabilinu og eru í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fjörutíu stig eftir tuttugu leiki, sex stigum á eftir toppliði Liverpool. Forest og Liverpool mætast einmitt í næstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.
„Ef þeir vinna Liverpool eru þeir í titilbaráttu,“ sagði Carragher á Sky Sports eftir sigurinn á Wolves í gær.
Forest er eina liðið sem hefur sigrað Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Forest vann leik liðanna á Anfield 14. september, 0-1.
Á síðasta tímabili endaði Forest í 17. sæti og fékk aðeins 32 stig í 38 leikjum. Margt hefur því breyst hjá liðinu á skömmum tíma.